Margvísleg menning

Orðið menning er vitanlega gamalt í málinu og hefur ýmsar merkingar. Í fornmáli merkir það 'lærdom, kundskab, dannelse' eða 'lærdómur, þekking, siðfágun' samkvæmt Ordbog over det norrøne sprosasprog. Skilgreiningin í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'þroska- eða þróunarstig mannlegs samfélags, andlegt líf þess og efnisleg gæði' en í Íslenskri orðabók eru fleiri merkingar gefnar, m.a. 'rótgróinn háttur, siður'. Einnig hefur orðið merkinguna 'manndómur' í samböndum eins og hafa menningu í sér til einhvers, og áður fyrr var það oft notað í merkingunni 'að koma fólki til manns' – „hann varði miklu fé til menningar barna sinna“ segir í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga 1957.

En fleiri skilgreiningar eru til en þær sem finna má í orðabókum. Haft er eftir Steini Steinarr að þegar hann var barn hafi hann heyrt orðið menning sem hann skildi ekki og spurði því fóstru sína um merkingu orðsins. „Það er rímorð,“ sagði fóstran, „það er rímorð, drengur minn, sem þeir nota fyrir sunnan til þess að ríma á móti þrenningunni … og þar hefur þú það.“ Og oft er vitnað til Þorsteins Gylfasonar sem sagði „Menning er að gera hlutina vel“ – hvað sem verið er að gera. Það rímar við þá tilfinningu margra að menning sé jákvætt orð og því óheppilegt í ýmsum samsetningum sem nú eru áberandi í umræðunni, svo sem ofbeldismenning og nauðgunarmenning sem hér hafa áður verið til umfjöllunar.

Í Risamálheildinnisjá að orðið menning er mjög frjótt í samsetningum – þar er að finna á annað þúsund mismunandi orð með þennan seinni lið, en í Íslenskri orðabók eru aðeins 25 samsetningar með -menning og í Íslenskri nútímamálsorðabók 19. Í listanum sem hér fylgir eru sýnd dæmi um hundrað þessara orða sem eiga það sameiginlegt að þau er ekki að finna í neinni íslenskri orðabók og raunar ekki í neinu þeirra gagnasafna sem eru á Málið.is eða Snara.is. En fæst þessara orða ættu reyndar erindi í orðabók, ýmist vegna þess að þau eru mjög sjaldgæf og jafnvel „einnota“ eða vegna þess að þau eru fullkomlega gagnsæ og þarfnast því ekki skýringar – nema hvorttveggja sé. Frá því eru þó ýmsar undantekningar.

Í fljótu bragði sýnist mér að það megi skipta þessum samsetningum í þrjá flokka. Einn er 'siðir og venjur tengd ákveðnu sviði þjóðlífsins eða ákveðnum neysluvörum' (bíómenning, deitmenning, kaffimenning, kynlífsmenning, partímenning) og annar er 'siðir og venjur tengd ákveðnum stöðum' (kaffihúsamenning, klósettmenning, miðborgarmenning, pöbbamenning, veitingastaðamenning). Þriðji flokkurinn eru svo 'siðir og venjur sem einkennast af tilteknu ástandi eða athöfnum' (eineltismenning, hernaðarmenning, nauðgunarmenning, slaufunarmenning, tálmunarmenning). Það eru einkum orð í þessum síðastnefnda flokki sem fara fyrir brjóstið á mörgum og þykja ekki samræmast merkingunni í menning.

Þessi síðastnefndi flokkur er þó ekki fjarri merkingunni 'rótgróinn háttur, siður' sem gefinn er í Íslenskri orðabók eins og áður segir. Þar eru tekin dæmin umferðarmenning, umgengnismenning og líkamsmenning. Auðvitað getur umferðarmenning verið bæði góð og slæm, rétt eins og matarmenning, vínmenning, kráarmenning, miðborgarmenning o.s.frv. Það er því alls ekki svo að samsetningar með -menning hafi alltaf jákvæða merkingu – sbr. líka orðið ómenning. En í tveimur fyrrnefndu flokkunum er fyrri liður samsetningarinnar hlutlaus en orðið getur fengið jákvæða eða neikvæða merkingu með hjálp lýsingarorðs – frábær matarmenning, ömurleg vínmenning, skemmtileg miðborgarmenning o.s.frv.

Í síðastnefnda flokknum er fyrri liður orðanna hins vegar neikvæður og samsetningin verður þess vegna neikvæð alveg hjálparlaust, án þess að nokkur lýsingarorð þurfi til. Það er tæpast nokkur ágreiningur um að einelti og ofbeldi sé óæskilegt og neikvætt og þess vegna eiga lýsingarorð eins og góð og slæm ekki við – hins vegar er hægt að nota lýsingarorð eins og mikil, rótgróin o.s.frv. Ég sé sem sagt ekki annað en það sé alveg hægt að nota orðið -menning í samsetningum af þessu tagi, enda vel þekkt að merking orða í samsetningum getur vikið nokkuð frá þeirri merkingu sem orðin hafa ein sér. Ég hef a.m.k. ekki fundið neitt annað orð sem hentar betur til þessara nota.