Bráðafrétt!

Í gær var vitnað hér í fyrirsögn á vefmiðli þar sem stóð „Brjótandi tíðindi“. Þetta orðalag er auðvitað hrá þýðing á Breaking News í ensku og á sér ekki hefð í íslensku þótt það hafi svo sem sést stöku sinnum áður. Þá rifjaðist upp að fyrir tæpum fimm árum var auglýst á Facebook-síðu Ríkisútvarpsins eftir góðri íslenskri samsvörun við Breaking News. Hér er rétt að athuga að Breaking News merkir ekki endilega 'stórfrétt' þótt sú merking ætti vissulega oft við, heldur 'information that is being received and broadcast about an event that has just happened or just begun', þ.e. 'upplýsingar sem eru að berast og verið að dreifa um atburð sem er nýorðinn eða nýhafinn'.

Fjöldi tillagna kom fram eins og sjá má í viðbrögðum við áðurnefndri auglýsingu RÚV en ég veit ekki hvort stofnunin hefur tekið einhverja þeirra upp á sína arma. Eitt þeirra orða sem stungið var upp á var bráðafrétt sem svipar til orðsins bráðtíðindi sem nefnt var í umræðunni í gær að Færeyingar notuðu yfir Breaking News. Ekki virðist bráðafrétt hafa komist í notkun þótt örfá dæmi megi finna um orðið á netinu. Fyrri liðurinn bráða- er skyldur lýsingarorðinu bráður 'sem ber fljótt að, skyndilegur; mikill', nafnorðinu bráð 'fljótlega, á næstunni' og sögninni bráða 'flýta sér' og tengist yfirleitt einhverju sem er brýnt eða gerist snögglega – bráðamóttaka, bráðaofnæmi o.s.frv.

Notkun orðhlutans bráða- í bráðafrétt fellur ágætlega að öðrum orðum með þennan fyrri lið, og orðið er gagnsætt og auðskilið. Ég fæ ekki betur séð en bráðafrétt sé afbragðsgott orð yfir Breaking News og mæli með því að það verði tekið upp.