Við eigum að leiðbeina, ekki leiðrétta

Ég veit að mörgum í þessum hópi (og ekki síður utan hans) finnst ég oft tala gáleysislega um málbreytingar – leggja blessun mína yfir þær og jafnvel fagna þeim. Ég skil þetta vel og það er fullkomlega eðlilegt út frá því uppeldi sem við höfum flest fengið á heimili og í skóla. Alla síðustu öld ríkti ströng tvíhyggja í málfarsefnum – allt var annaðhvort rétt eða rangt, og yfirleitt var aðeins eitt tilbrigði talið rétt en öll önnur röng. Þetta viðhorf var innprentað í okkur og það er meira en að segja það að rífa sig frá því. Ég er samt sannfærður um að það þurfum við að gera. Það er bæði tungumálinu og okkur sjálfum til góðs að rækta með okkur umburðarlyndi gagnvart öðrum tilbrigðum en þeim sem okkur var kennt að væru rétt.

Fæstar þær breytingar sem hafa verið og eru í gangi í íslensku eru þess eðlis að ástæða sé til að hafa áhyggjur af áhrifum þeirra á framtíð málsins. Þetta eru aðallega breytingar á fallstjórn einstakra sagna og forsetninga (mig langar > mér langar, spá í þetta > spá í þessu) breytingar á einstökum beygingarmyndum (ég vil > ég vill, til drottningar > til drottningu), breytingar á merkingu einstakra orða (dingla 'lafa niður, hanga' > 'hringja bjöllu') og breytingar á framburði (göngum yfir brúna > göngum yfir brúnna). Sumar breytingar eru vissulega róttækari, eins og „nýja þolmyndin“ svokallaða (það var barið mig) og „útvíkkað framvinduhorf“ (ég er ekki að skilja þetta) en hvorug breytingin útrýmir eldra formi.

Það sem væri hins vegar ástæða til að hafa áhyggjur af, og mikilvægt að berjast gegn ef þess yrði vart, eru grundvallarbreytingar á málkerfinu. Það væri t.d. ef einstakir beygingarflokkar hyrfu úr málinu eða beygingin færi að veiklast á einhvern hátt, svo sem þannig að óbeygðum orðum fjölgaði eða eignarfallið léti verulega undan síga. Oft er nefnt að viðtengingarhátturinn sé í viðkvæmri stöðu og brottfall hans væri vissulega mikill skaði en ylli þó ekki hruni kerfisins. Sömuleiðis væri það alvarlegt og gæti haft víðtæk áhrif ef reglur um orðaröð breyttust verulega. Verulegar breytingar á framburði gætu líka orðið afdrifaríkar, einkum ef beygingarendingar og önnur áherslulaus atkvæði veikluðust að ráði.

Þótt þarna sé sjálfsagt að vera á varðbergi á megináherslan að vera á því að verja umdæmi íslenskunnar og auka notkun hennar. Það er grundvallaratriði að íslenska sé nothæf – og notuð – við allar aðstæður og á öllum sviðum. Það er líka grundvallaratriði að auka orðaforða ungs fólks. Iðulega er amast við enskættuðu orðalagi en eins og ég hef sagt er enskur uppruni í sjálfu sér ekki næg ástæða til að fordæma tiltekið orðalag. Á hinn bóginn er notkun enskættaðra orða og orðasambanda þar sem íslenskar hliðstæður eru til oft vísbending um að þau sem notað þessi orð og sambönd hafi ekki fengið næga þjálfun í að lesa og skrifa íslensku. Sú þjálfun er miklu áhrifaríkari vörn gegn málbreytingum en leiðréttingar.

Ég vil líka leggja áherslu á að ég held því ekki fram, og hef aldrei gert, að kennarar eigi ekki að eða megi ekki fræða nemendur um hvað er og hefur verið talið rétt og viðurkennt mál, og benda á þegar út af því er brugðið. Þvert á móti – kennari sem lætur hjá líða að benda nemendum á að mér langar og ég vill og það var barið mig og hliðiná sé ekki viðurkennt mál er að bregðast skyldu sinni að mínu mati. Nemendur eiga rétt á að fá fræðslu um þetta og eiga þá val um hvort þau (reyna að) breyta máli sínu ef það er frábrugðið viðmiðunum. En þótt sjálfsagt sé að leiðbeina nemendum á ekki að leiðrétta það mál sem þau hafa alist upp við eða draga þau niður í einkunn fyrir að tala og skrifa eins og þeim er eiginlegt.