Endurskoðun málstaðals

Fyrir helgi hitti ég gamlan nemanda minn og fésbókarvin, framhaldsskólakennara í íslensku. Hann hefur fylgst með pistlum mínum um íslenskt mál og sagðist vera sammála mér að miklu leyti. Hins vegar lenti hann í vanda með hvað hann ætti að segja nemendunum. Ég hef boðað að það sé ekkert athugavert við ýmislegt sem hingað til hefur verið talið „málvillur“ og kennarar hafa reynt að venja nemendur af. Á nú að snúa við blaðinu allt í einu og segja nemendum að nú megi þeir bara segja og skrifa það sem þeir vilja – allt sé jafnrétt?

Nei – ég ekki þeirrar skoðunar að allt sé jafngott eða jafngilt, þótt sumir hafi kannski skilið orð mín svo. Vitanlega á að leggja áherslu á að nemendur vandi sig og það er eðlilegt og sjálfsagt að mæla gegn ýmsum nýjungum sem eru að koma upp, hvort sem það eru enskuslettur, ensk áhrif á setningagerð og orðafar, eða sjálfsprottnar nýjungar sem koma upp án þess að þær verði raktar til utanaðkomandi áhrifa. Það er líka sjálfsagt og eðlilegt að hvetja til skýrleika í máli og framsetningu en vinna gegn hvers kyns ósamræmi og hroðvirkni. En hvað með „málvillurnar“ – ýmsar málbreytingar sem eru og hafa verið í gangi? Á að láta þær óáreittar?

Já og nei. Mér finnst mikilvægt að nemendum sé ekki innrætt að það mál sem þeir hafa alist upp við, margir hverjir, sé „rangt“ í einhverjum skilningi. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að þeim sé sagt hvað hefur verið talið rétt og hvað rangt, og gerð skýr grein fyrir því að í sumum tilvikum geti það komið sér illa fyrir fólk að hafa ekki vald á þeim tilbrigðum sem hafa verið talin „rétt“ og samræmast málstaðlinum. Nemendur hafa þá val um hvort þeir leggja það á sig að tileinka sér tilbrigði sem kunna að vera í ósamræmi við þeirra eigið mál. En það á ekki undir nokkrum kringumstæðum að prófa í „réttu“ máli.

En eins og ég hef sagt tel ég nauðsynlegt að breyta þeim staðli sem hefur gilt undanfarna öld og færa hann í átt til þess máls sem almenningur talar og skrifar. Þetta þarf að gerast án þess að fórnað sé hinu órofa samhengi í ís­lensku ritmáli sem svo oft er vegsamað – með réttu. Vandinn er hins vegar sá að okkur skortir bæði tæki og vettvang til slíkra breytinga. Það hefur enginn lengur þá stöðu sem Björn Guðfinnsson, Halldór Halldórsson, Árni Böðvarsson, Gísli Jónsson og Baldur Jónsson (allt karlmenn, auðvitað) höfðu á síðustu öld. Ég held að það vilji heldur enginn hafa þá stöðu – eða vilji að einhver hafi þá stöðu yfirleitt.

Ef einhver ætti að beita sér fyrir endurskoðun staðalsins væri það kannski helst Íslensk málnefnd sem hefur m.a. það hlutverk „að veita stjórn­völdum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli“. Samkvæmt þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi sem samþykkt var á Alþingi í vor á að endurskoða íslenska málstefnu fyrir lok næsta árs (reyndar virðist það vera villa í ályktuninni – á sennilega að vera 2021). Vissulega er núgildandi málstefna almennt orðuð, án þess að tekið sé á einstökum málfarsatriðum, en kannski væri samt hægt að nýta væntanlega endurskoðun til að efna til víðtækrar umræðu um málstaðalinn og leggja grunn að endurskoðun hans.