Ný forsetning

Nú er komin ný útgáfa af Risamálheildinni (2022) sem hefur að geyma hátt í 2,7 milljarða orða – rúmum milljarði meira en fyrri útgáfa frá 2019. Þótt þessi stækkun sé mikilvæg skiptir samt meira máli að þarna eru komnar inn nýjar textategundir þannig að fjölbreytni málheildarinnar eykst að mun. Þar munar mest um rúmlega 800 milljónir orða af samfélagsmiðlum – texta af spjallþráðum og bloggsíðum og tvít af Twitter. Málsnið þessara texta er óformlegt og stendur nærri talmáli og þeir eru því ómetanlegir til margs kyns málrannsókna. Vitað er að málbreytingar koma yfirleitt upp í talmáli og oft getur liðið töluverður tími þar til fer að bóla á þeim í formlegu ritmáli.

Eitt slíkt dæmi er orðið hliðiná. Um það skrifaði ég pistil fyrir tæpum tveimur árum og sagði: „Nýlega var mér bent á að ungt fólk væri farið að nota hliðiná í stað sambandsins við hliðina á, t.d. ég stóð hliðiná henni, húsið er hliðiná búðinni. Ég hafði ekki tekið eftir þessu en slæðingur af dæmum finnst með gúgli og í Risamálheildinni eru 17 dæmi. Talsvert fleiri dæmi, 76 talsins, eru um við hliðiná, þar sem fyrri forsetningin heldur sér en nafnorðið og sú seinni renna saman. Slíkur samruni er vitaskuld fullkomlega eðlilegur í framburði en venjulega ekki viðurkenndur í ritmáli, þar sem reglan er sú að fara eftir uppruna – þótt stundum sé ritað oní, niðrí, uppí o.fl. samræmist það ekki ritreglum.“

Nú leitaði ég aftur að hliðiná í nýju Risamálheildinni og þar varð aldeilis annað uppi á teningnum. Nú fannst alls 1881 dæmi um hliðiná án við, setningar eins og „hann situr nú oftast með tölvuna hliðiná mér í sófanum“. Nærri öll dæmin, 1860, eru af samfélagsmiðlum. Dæmi um við hliðiná eru 4579 – langflest, 4663, af samfélagsmiðlum. Einnig er hliðina á iðulega skrifað í tvennu lagi án þess að við sé á undan, dæmi eins og „Skólinn minn er hliðina á húsinu mínu“. Slík dæmi skipta hundruðum á samfélagsmiðlum, en ekki er hægt að tilgreina nákvæma tölu vegna þess að það er útilokað að greina slík dæmi vélrænt frá dæmum þar sem við á ekki að vera, eins og „Ég hef bara verið að tala um lagalegu hliðina á þessu“.

Þetta er því mjög skýrt dæmi um málbreytingu sem greinilega er orðin mjög útbreidd í óformlegu málsniði en vart farið að gæta í venjulegu ritmáli. Eins og ég nefndi í fyrri pistli um hliðiná á þetta sér skýra hliðstæðu í tilurð forsetninga eins og bak við, sakir og sökum – í öllum tilvikum hefur forsetning fallið framan af nafnorði sem við það hefur orðið forsetning. Í fyrri pistli sagði ég: „Það er auðvitað hægt að amast við þessari breytingu ef fólk vill og kalla þetta hina örgustu málvillu. Mér finnst þetta hins vegar bráðskemmtilegt dæmi um að íslenskan er sprelllifandi og getur jafnvel bætt orðum í hóp forsetninga sem venjulega er talinn lokaður orðflokkur. […] Mér finnst að við eigum að taka hliðiná fagnandi.“