Nýtt orð í stað ráðherra: Forráð
Haustið 1998 var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar þar sem sagði: „Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta undirbúa breytingar á stjórnarskrá og lögum til að taka megi upp nýtt starfsheiti ráðherra sem bæði kynin geta borið.“ Í greinargerð sagði: „Það særir ekki málkennd manna þótt konur séu forsetar, kennarar eða forstjórar en öðru máli gegnir um orðið „herra“. Það stríðir ekki einungis gegn málvitund okkar að kona sé herra, heldur er það merkingarlega útilokað að kona sé herra á sama hátt og karl getur ekki verið frú. Orðið herra merkir […] annars vegar titil karlmanns og hins vegar húsbónda eða yfirmann og ljóst er að síðarnefnda merkingin er frá þeim tíma þegar aðeins karlar gegndu slíkum stöðum.“
Þessa tillögu fluttu Guðný Guðbjörnsdóttir og Kristín Halldórsdóttir þingkonur Kvennalistans og Svavar Gestsson þingmaður Alþýðubandalagsins. Mælt var fyrir tillögunni og henni vísað til nefndar þar sem hún sofnaði. Haustið 2007 endurflutti Steinunn Valdís Óskarsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar þessa tillögu óbreytta en hún fékk sömu örlög og fyrr. Fyrir ári fluttu svo átta þingmenn úr þremur flokkum undir forystu Guðmundar Andra Thorssonar þingmanns Samfylkingarinnar tillögu með örlítið breyttu orðalagi: „Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd um nýtt starfsheiti ráðherra sem endurspegli betur veruleika og hugsunarhátt dagsins í dag.“ Þessi tillaga komst ekki einu sinni á dagskrá þingsins.
Karllægara starfsheiti en ráðherra er vandfundið og því eðlilegt að þessar tillögur hafi komið upp, löngu áður en almenn umræða um kynhlutlaust mál fór af stað. Það hefur hins vegar gengið illa að koma með góðar tillögur um annað starfsheiti. Æskilegt væri að nota hvorugkynsorð til að öll kyn geti samsamað sig starfsheitinu, og einnig væri gott að halda orðhlutanum ráð- til að hafa samfellu milli starfsheita. En í stað þess að ráð- sé fyrri hluti samsetningar gæti það verið seinni hlutinn. Það eru til fordæmi fyrir starfsheitum eða titlum þar sem -ráð er seinni hluti samsetts hvorugkynsorðs, svo sem leyndarráð, kammerráð, konferensráð og fleiri. Titlarnir eru vissulega erlendir, en orðin eiga sér samt hefð í íslensku.
Ég legg til að nýta orðhlutann for-, eins og í formaður, forstjóri, forseti, forysta o.fl., þannig að nýtt starfsheiti ráðherra verði forráð. Það orð er vissulega til, ekki síst í samsetningum eins og forráðamaður og mannaforráð og í orðasambandinu kunna (ekki) fótum sínum forráð, en það ætti ekki að valda vandkvæðum. Orðið forráð er einu atkvæði og tveimur bókstöfum (og hljóðum) styttra en ráðherra og lipurt í samsetningum – forsætisforráð, fjármálaforráð, innviðaforráð, utanríkisforráð o.s.frv. Þá gæti ráðherranefnd heitið forráðanefnd, ráðherrabíll væri forráðsbíll, ráðherrastóll væri forráðsstól, ráðherraábyrgð væri forráðsábyrgð o.s.frv. Eðlilegt væri samt að Ráðherrabústaðurinn héldi nafni sínu.
Auðvitað má koma með ýmsar mótbárur gegn þessu orði. Vissulega eru til fjölmörg önnur orð sem enda á -ráð og vísa flest til einhvers konar stjórna eða nefnda, svo sem bankaráð, manneldisráð, skólaráð o.s.frv., en orðhlutinn (myndanið) -for- á undan -ráð ætti að tryggja að ljóst sé að verið er að vísa til ríkisstjórnar. Það mætti líka hafa það á móti orðinu forsætisforráð að þar kemur orðhlutinn for- tvisvar fyrir. En slíkt er ekkert einsdæmi – við höfum orð eins og bílaleigubíll, örnefni eins og Vatnshlíðarvatn og Dalsdalur, o.fl. Örugglega mætti tína ýmislegt fleira til, en meginatriðið er að það er alveg sama hvaða orð yrði fyrir valinu – við þyrftum tíma til að venjast því, eins og öðrum nýjum orðum. En það væri alveg hægt.