Hvað merkir sendiráð?

Í framhaldi af hugmynd minni um að í stað orðsins ráðherra yrði notað orðið forráð, í stíl við titla eins og leyndarráð, kammerráð og konferensráð, fór ég að velta fyrir mér öðrum starfsheitum sem enda á –herra, einkum sendiherra. Það lægi auðvitað beint við að fara svipaða leið og nota orðið hvorugkynsorðið sendiráð í stað sendiherra, en það er því miður upptekið eins og alkunna er – merkir 'skrifstofa sendiherra og starfsmanna hans', þ.e. stofnun, og getur einnig merkt 'bygging sem hýsir starfsemi sendiráðs'. Þegar að er gáð er það auðvitað dálítið ankannalegt að orð sem endar á -ráð skuli vísa til stofnunar eða byggingar – ekkert í merkingu orðsins ráð út af fyrir sig skýrir það. Enda hefur þetta ekki alltaf verið svo.

Elsta dæmi um orðið sendiráð er frá 1914, og í Íslenzk-danskri orðabók frá 1920-1924 er það skýrt 'Gesandtskab, Legation' en þau orð vísa einkum til starfsliðs. Í flestum elstu dæmunum virðist sendiráð geta vísað til starfsfólks, ráðs – „Jón Krabbe, formaður sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn“ segir í Heimskringlu 1926 – þótt vissulega sé oft einnig hægt að skilja þau svo að vísað sé til stofnunar. En þegar vísað er til ákveðinnar byggingar eru fremur notaðar samsetningar: „Kínversku kommúnistarnir, er réðust inn í sendiráðsskrifstofuna, gerðir landrækir“ segir í Íslendingi 1925, og í Ísafold 1926 segir: „Þegar þeim þótti fokið í öll skjól og þeir gáfust upp við atvinnuleitina, komu þeir á sendiráðsskrifstofuna.“

Þetta er skemmtilegt dæmi um hvernig merking orða getur breyst – í þessu tilviki frá því að vísa til starfsliðsins, hins eiginlega ráðs (formaður íslenska sendiráðsins) yfir í að vísa til stofnunarinnar sem starfsliðið vinnur við (starfslið sendiráðsins er fámennt) og svo bygginguna þar sem starfsemin fer fram (sendiráðið stendur við Túngötu). Þetta er skiljanleg og eðlileg þróun, þótt auðvitað megi segja að útkoman sé fullkomlega „órökrétt“. En svipað hefur gerst með Stjórnarráðið – það orð vísar ýmist til æðstu stjórnar landsins, þ.e. ríkisstjórnar og ráðuneyta, eða til gamla tugthússins við Lækjartorg sem opinberlega heitir Stjórnarráðshúsið. Stundum hefur reyndar verið amast við því að þessu sé blandað saman.

En svo að aftur sé komið að upphafinu kom reyndar í ljós við athugun mína að orðið sendiráð var stöku sinnum notað í merkingunni 'sendifulltrúi'. Þannig segir í Alþýðublaðinu 1937: „Wanberg sendiráð hefir afhent forseta Frakklands og forsætisráðherra Frakklands sitt eintakið hvorum af einu hinna íslenzku fornrita.“ Í Fálkanum 1938 segir: „Elsta dóttir Musolini, sem heitir Edda, er nýlega trúlofuð Ciano nokkrum greifa, sem er sendiráð Ítala við páfahirðina.“ Einhver munur virðist hafa verið á sendiráði og sendiherra: „Síðustu árin hefir hann verið í Berlín, fyrst sem sendiráð og síðan sem sendiherra“ segir í Fálkanum 1938. Flest dæmin um þessa notkun orðsins eru úr Fálkanum og gætu verið einkum orðfæri eins manns.