Engu var til sparað

Í Málfarsbankanum segir: „Rétt er að segja það var ekkert til sparað.“ Þetta er oft áréttað í málfarspistlum, t.d. hjá Gísla Jónssyni í Morgunblaðinu árið 2000 og Jóni G. Friðjónssyni í Morgunblaðinu bæði 2005 og 2007, og einnig í pistli Jóns sem birtur er í Málfarsbankanum. Þar segir að sambandið komi fyrir þegar í fornu máli, en afbrigðið spara engu til sé kunnugt frá seinni hluta 19. aldar. Elsta dæmi um það er í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags 1881: „þá var þar 1852 fyrst í öllum löndum stofnað reglulegt fiskiklak í Huningen á kostnað stjórnarinnar og engu til sparað.“ Annað dæmi er úr Reykvíkingi 1891: „allt sem hér er stofnað, byrjar með ákaflegu fjöri og áhuga, engu tilsparað og allt er í uppnámi.“

Nokkur orðaraðartilbrigði koma fyrir af þessu sambandi – ekkert/engu til spara, ekkert/engu spara til og spara ekkert/engu til. Dæmi um þágufallið engu í þessum samböndum á tímarit.is eru á níunda hundrað og spanna allt tímabilið frá 1881 en hefur smátt og smátt farið fjölgandi, einkum á síðustu áratugum. Dæmin um þolfallið ekkert í sömu samböndum eru þó meira en átta sinnum fleiri. Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru hins vegar álíka mörg dæmi um þolfall og þágufall í þessum samböndum – 93 á móti 87. Þar sem málfar samfélagsmiðla endurspeglar þær hræringar sem eru í gangi í málinu er ljóst að þágufallið er í sókn. Orðin fátt/fáu og lítið/litlu koma einnig fyrir í þessum samböndum og þar er tilhneigingin sú sama.

Jón G. Friðjónsson segir að í notkun þágufalls í þessum samböndum muni „gæta áhrifa frá orðasambandinu kosta e-u/öllu/miklu til (e-s)“ sem „merkir 'reiða e-ð/allt fram sem greiðslu (fyrir e-ð), leggja e-ð/allt í kostnað; vilja e-ð/allt til vinna; leggja sig allan fram'“ og er a.m.k. síðan á 16. öld. Í þessu sambandi stýrir sögnin kosta sem sé þágufalli þótt hún taki annars með sér þolfall hvort sem hún merkir 'seljast á tilteknu verði' (kosta mikla peninga) eða 'greiða kostnað af (e-u), standa straum af (e-u)' (kosta nýja óperuhúsið). En sama gildir um sögnina spara. Þótt hún taki nú oft með sér þágufall í afbrigðum af spara engu til hefur það ekki áhrif á fallstjórn hennar að öðru leyti – aldrei er sagt *spara peningum eða *spara kostnaði.

Það verður því ekki betur séð en samböndin kosta einhverju til og spara engu til séu alveg hliðstæð – sögn sem annars stýrir þolfalli tekur með sér þágufall í sambandi við forsetninguna til. Eini munurinn er sá að þágufallið er nokkrum öldum eldra með kosta en með spara. „Þessi málnotkun er ekki í samræmi við málvenju“ segir Jón G. Friðjónsson um spara engu til í pistli frá 2017. En í ljósi þess að þágufallið á sér 140 ára óslitna sögu í þessu sambandi og tíðni þess í ritmáli hefur aukist mjög á síðustu árum, og virðist jafnvel slaga upp í tíðni þolfallsins í óformlegu máli, finnst mér ekkert annað koma til greina en viðurkenna þágufallið sem málvenju í nútímamáli – og þar með sem rétt mál samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu.

Það sem er forvitnilegast í þessu máli er þó ekki hvað eigi að teljast „rétt mál“, heldur ástæður þessar breytingar – hvers vegna þágufallið sæki á í þessum tilteknu samböndum á kostnað þolfalls. Fleiri hliðstæð sambönd með þágufalli eru til, svo sem tjalda öllu til, verja fjármunum til o.fl. Einnig er sterk tilhneiging til þess að hafa þágufall með sögninni veita í samböndum eins og veita fjármunum til þótt Málfarsbankinn mæli með þolfalli – veita fjármuni til. „Í dæmum sem þessum er notkun þf. eldri og upprunalegri“ segir Jón G. Friðjónsson og segir þessa breytingu mega rekja til þess að í málinu voru fyrir dæmi eins og veita vatni“ og einnig kunni „að gæta áhrifa frá sögninni verja (verja e-u í e-ð/til e-s)“.

En í stað þess að líta svo á að þágufall komi inn í einstök sambönd fyrir áhrif frá öðrum tilteknum samböndum – spara engu til komi til við áhrif frá kosta einhverju til, veita fjármunum til komi til við áhrif frá verja fjármunum til – er kannski rétt að líta á þetta í víðara samhengi. Það er vel hugsanlegt að málnotendur greini – auðvitað ómeðvitað – ýmis sambönd af þessu tagi og tengi ákveðna merkingu við þágufallið í þeim. Þeir rekist síðan á önnur sambönd sem þeim finnst hliðstæð og yfirfæri þá þágufallið á þau. Þá er sem sé ekki um að ræða áhrif frá einu sambandi á annað, heldur alhæfingu á fallnotkun í samböndum af ákveðnu tagi. En fyrir venjulega málnotendur skiptir svo sem engu hvor skýringin er réttari.