Aukinheldur
Í gær vakti Guðmundur Andri Thorsson máls á því hér að atviksorðið aukinheldur sem Halldór Laxness notaði iðulega í merkingunni 'hvað þá' og er gefið upp í þeirri merkingu einni í Íslenskri orðabók er núna oftast notað í merkingunni 'auk þess' og sú merking ein er gefin upp í Íslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmið um þetta samband er í bréfi frá 1569: „En eg gaf og gef þar sodan svar upp a um fyrr greinda iord at auckin helldur mun eg skial hafa fyrir heni at eg hef alldri heyrt þess gettit at hun nockun tima hafi komit i eign mins faudurs.“ Þarna er er merkingin sennilega 'hvað þá' – þetta virðist merkja eitthvað í átt við 'ég hef aldrei heyrt þess getið að jörðin hafi komist í eigu föður míns, hvað þá að ég hafi skjal fyrir henni'.
Sama merking kemur fram í ævisögu Eiríks á Brúnum frá seinustu áratugum 19. aldar: „það er ekkert látið gjöra úti við, hvorki sumar né vetur, ekki svo mikið sem að mjólka kýr, bændur og prestar gjöra það sjálfir, biskupinn aukin heldur aðrir.“ Sama máli gegnir um elsta dæmi á tímarit.is, í Fjallkonunni 1907: „Hér eru sóknirnar svo stórar og vegalengdirnar svo miklar, ár og aðrar torfærur svo margar að það er alveg ógjörningur frá fjölda af bæjum í skammdegi og harðviðrum vetrartímans fyrir fullorðið fólk, aukin heldur fyrir börn að sækja kirkja nema svo sem einu sinni á vetri eða tvisvar.“ Í Íslenzkri setningafræði Jakobs Jóh. Smára frá 1920 segir: „kaðallinn var ekki faðmur á lengd, aukinheldur meira (=hvað þá meira)“.
Það er athyglisvert að Jakobi finnst ástæða til að skýra aukinheldur sem bendir til þess að það hafi ekki verið algengt og merkingin á reiki – hún virðist önnur í Fram 1917: „Þarna misskilur höf. víst orðin kleif og gjögur. Hann lætur þau bæði þýða lægð eða slakka í landinu, en hvorttveggja er einmitt upphækkað land. Orðið »gjögur,« lætur höf. aukin heldur þýða »gjá.«.“ Hér verður ekki betur séð en þetta merki 'auk þess'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 stendur við orðið aukin: „adv. i Forb. aukin heldur (pop.) = auk heldur.“ Skammstöfunin pop. merkir 'populær', þ.e. óformlegt mál. Það er ekki fyrr en upp úr 1940 sem farið er að nota orðið eitthvað í riti, hugsanlega fyrir áhrif frá Halldóri Laxness sem notaði það fyrst í Heimsljósi.
Orðið var þó frekar sjaldgæft fram um 1980 en tók þá mikinn kipp og hefur verið mjög algengt síðustu 30 ár – 20 sinnum algengara á tímarit.is áratuginn 2000-2009 en áratuginn 1970-1979. Þetta virðist þó vera fyrst og fremst ritmálsorð – samkvæmt Risamálheildinni er það margfalt sjaldgæfara á samfélagsmiðlum sem endurspegla óformlegt mál. Framan af var það yfirleitt skrifað í tvennu lagi í samræmi við uppruna en það er e.t.v. líka fyrir áhrif frá Halldóri Laxness sem orðið er oftast skrifað í einu lagi eftir 1940 þótt nokkuð sé einnig um það alveg fram undir þetta að skrifað sé aukin heldur. Báðar merkingarnar eru líka algengar framan af en eftir því sem líður á öldina nær merkingin 'auk þess' yfirhöndinni og er nær einhöfð síðustu áratugina.