Handstýrðar málbreytingar á pólitískum forsendum
Í umræðum um breytingar á orðafari í nafni kynhlutleysis hefur því verið haldið fram að slíkar breytingar séu af hinu illa – þetta sé „handstýrð ritskoðun á tungumálinu, sprottin af pólitískum ástæðum“ eins og sagt var hér í gær. Það er látið sem þetta sé nýjung í íslensku en því fer fjarri – það má halda því fram að tilraunir til „handstýringar“ málsins megi rekja allt aftur á tólftu öld þegar Fyrsti málfræðingurinn svonefndi setti fram tillögur sínar um róttækar endurbætur á íslensku stafrófi. Þetta var gert af hugsjón sem má vel fella undir pólitík – „til þess at hægra verði að rita og lesa, sem nú tíðkast og á þessu landi, bæði lög og ættvísi eða þýðingar helgar, eða svo þau hin spaklegu fræði, er Ari Þorgilsson hefir á bækur sett af skynsamlegu viti“.
Það er svo sem skilgreiningaratriði hvort þetta er kölluð „pólitísk handstýring“, en það er ljóst að allt frá því snemma á nítjándu öld og fram á þennan dag hefur stórfelld málstýring verið rekin undir merkjum „málhreinsunar“ þar sem leitast er við að útrýma erlendum orðum sem hafa komið inn í málið, áður einkum úr dönsku en seinna úr ensku, og smíða í þeirra stað orð úr íslensku hráefni. Það blandast auðvitað engum hugur um að þetta „hreinsunarstarf“ átti sér pólitískar forsendur, enda rekið af mestum krafti á þeim tíma sem Íslendingar voru að berjast fyrir sjálfstæði frá Dönum. Mörg þeirra orða sem reynt var að útrýma áttu sér langa hefð í málinu og féllu ágætlega að því en ætterni þeirra var nóg til að gera þau óalandi og óferjandi.
Sama má segja um þá baráttu gegn „málvillum“ sem hér var rekin af hörku alla síðustu öld og að nokkru leyti enn. Þar er reynt með handafli að snúa við ýmsum sjálfsprottnum málbreytingum sem margar hverjar eiga sér áratuga eða jafnvel aldagamla sögu og hafa náð til verulegs hluta málnotenda. Þessi barátta er líka hápólitísk, vegna þess að „málvillurnar“, eins og „þágufallssýki“ og „flámæli“ svo að dæmi séu nefnd, eru eða voru yfirleitt útbreiddari meðal hópa sem eiga undir högg að sækja í þjóðfélaginu efnahagslega og félagslega og búa ekki yfir menningarlegu auðmagni. Þannig hefur þessi barátta stuðlað að því að viðhalda eða auka stéttaskiptingu í landinu, þótt ég ætli ekki að gera því skóna að það hafi verið ætlunin.
Við erum flest alin upp við það að málið eigi að vera „hreint“ og „rétt“ og það sé beinlínis óþjóðlegt að draga þá stefnu í efa. Aftur á móti finnst mörgum að kynjapólitík eigi ekkert erindi inn í tungumálið og það sé misskilin jafnréttisbarátta að leitast við að draga úr karllægni málsins. Eðlilegt er að um þetta séu skiptar skoðanir en æskilegt að fólk sé sjálfu sér samkvæmt í málflutningi. Mér býður samt í grun – og hef raunar séð ýmis dæmi um það – að sama fólkið og hugnast ekki breytingar á málinu í átt til kynhlutleysis hafi iðulega velþóknun á „málhreinsun“ og baráttu gegn „málvillum“ þótt það sé ekki síður „handstýrð ritskoðun á tungumálinu, sprottin af pólitískum ástæðum“ eins og hér hefur verið rakið.