Ungbörn og ungabörn
Inn í umræðu sem varð hér í dag um orðið hvítvoðungur fléttaðist deila um orðið ungabarn sem sumum þykir rangt og telja að einungis myndin ungbarn sé rétt. Málfarsbankinn segir vissulega „Frekar skyldi segja ungbarn en „ungabarn““, og í grein á Vísindavefnum segir Guðrún Kvaran: „Báðir rithættirnir, ungbarn og ungabarn, teljast réttir en frekar er mælt með rithættinum ungbarn.“ En bæði Íslensk orðabók og Íslensk nútímamálsorðabók hafa myndina ungabarn sem flettiorð án nokkurra athugasemda, og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er myndin ungabarn líka gefin og merkt „Af.“ sem merkir að orðið tíðkist á Austurlandi. Vel má vera að þessi mynd hafi í upphafi verið algengari þar en annars staðar, en hún er ekki staðbundin nú.
Orðmyndin ungabarn á sér a.m.k. 140 ára sögu í málinu. Í Iðunni 1884 segir: „hefði ekki Ingibjörg komið þjótandi með ungabarnið í fanginu.“ Lengi framan af eru þó aðeins örfá dæmi á tímarit.is úr blöðum gefnum út á Íslandi en langflest úr vesturíslensku blöðunum. Sé það rétt í Íslensk-danskri orðabók að orðið hafi upphaflega einkum tíðkast á Austurlandi gæti þetta endurspeglað það að hlutfall Austfirðinga í hópi vesturfara var mjög hátt. Það er ekki fyrr en upp úr 1950 sem farið er að nota orðið að ráði í íslenskum blöðum og tíðnin eykst verulega eftir 1970. Myndin ungbarn hefur þó alltaf verið margfalt algengari en heldur hefur dregið saman með orðunum á síðustu áratugum. Vitaskuld er ungabarn rétt íslenska, ekkert síður en ungbarn.
Því er oft haldið fram að ungabarn hljóti að merkja 'barn unga'. Það byggist á þeim misskilningi að orðið sé eignarfallssamsetning og fyrri liður þess sé nafnorðið ungi í eignarfalli (eintölu eða fleirtölu). Formsins vegna gæti þetta vissulega verið eignarfallssamsetning en merkingarlega er það útilokað – ungar eiga ekki börn og það er þeim auðvitað ljóst sem lesa merkinguna 'barn unga' út úr orðinu. Það er vitanlega hreinn útúrsnúningur og ekki málefnalegur. Þarna er a-ið ekki eignarfallsending heldur tengihljóð eða tengistafur (bandstafur), eins og í ruslafata, dótakassi og fjölmörgum öðrum orðum. Slík orðmyndun er fullgild í íslensku þótt hún sé ekki eins algeng og eignarfallssamsetning.
Það hefur verið bent á að í fleirsamsettum orðum er myndin ungbarn einhöfð en ungabarn þekkist ekki – við tölum um ungbarnaföt, ungbarnamat, ungbarnasund o.s.frv. en ekki *ungabarnaföt, *ungabarnamat, *ungabarnasund o.s.frv. Ástæðan fyrir þessu – og fyrir uppkomu myndarinnar ungabarn – er sennilega tilhneiging málsins til víxlhrynjandi, þ.e. til að láta áhersluatkvæði og áherslulaus atkvæði skiptast á. Í orðinu ungbarn standa saman tvær rætur, tvö áhersluatkvæði, og það er frekar stirt. Með því að skjóta inn tengihljóðinu a og fá myndina ungabarn fáum við víxlhrynjandi (áhersluatkvæðið ung – áherslulausa atkvæðið a – áhersluatkvæðið barn). Í fleirsamsettum orðum fæst víxlhrynjandi fram án slíks innskots.