Að lenda stökk(i)

Það er vel þekkt að ýmsar málfarsnýjungar eiga rætur í íþróttamáli og ein slík vakti athygli mína í gær þegar ég sá setningagerð sem ég kannaðist ekki við í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins – „Lenti erfiðasta stökki sögunnar“. Þessi setningagerð var svo endurtekin inni í fréttinni þar sem sagði: „Hinn 18 ára gamli Bandaríkjamaður Ilia Malinin skráði sig á spjöld sögunnar er hann lenti fyrstur allra fjórföldum „Axel“ á alþjóðlegu móti.“ Í fréttinni kemur fram að þessi skautasnillingur hafi tekið einstaklega erfitt stökk sem nefnt er „Axel“ og lent á réttan hátt (á öðrum fæti) eftir stökkið. Það sem ég kannaðist ekki við var að sögnin lenda væri notuð á þennan hátt, þ.e. með andlagi (stökki) í þessari merkingu. Þarna hefði ég sennilega talað um að takast eða heppnast stökkið.

Elsta dæmi sem ég fann um sambandið lenda stökk(i) er úr umræðu um fjallahjólreiðar á Hugi.is 2006: „það tekur hellvíti mikið á bakið og svo auðvitað höggin við að lenda stökk!“. En sambandið er aðallega notað í fimleikum og í listdansi á skautum í merkingunni 'lenda á réttan hátt eftir stökk'. Elsta dæmi sem ég fann um þá notkun var á Eyjunni 2007: „Kurt Browning frá Kanada var fyrstur allra til að lenda fjórföldu stökki í listdanskeppni á skautum.“ Í Fréttablaðinu 2014 segir: „þetta verður hörkukeppni og mun koma til með að ráðast af því hverjir lenda stökkunum sínum best.“ Í Vísi sama ár segir: „Auðvitað hefðum við viljað lenda fleiri stökkum.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2015 segir: „Við þurfum að lenda 36 stökkum og negla þetta.“ Mörg fleiri dæmi eru frá síðustu árum.

Í dæmunum hér að framan er andlagið stökk í þágufalli nema í dæminu af Huga.is. Þágufallið er vissulega langalgengast en nokkur dæmi má þó finna um þolfallið. Í Fréttablaðinu 2021 segir: „Það ætlaði allt um koll að keyra innan liðsins eftir að hann lenti stökkið.“ Í sama blaði sama ár segir: „Það trylltist allt í keppnishöllinni þegar Kolbrún lenti stökkið.“ Í Vísi sama ár segir: „þar með varð hann fyrstur í heiminum til þess að framkvæma og lenda þetta stökk í keppni.“ Af þessu mætti e.t.v. draga þá ályktun að þolfallið væri í sókn en dæmin eru of fá til að unnt sé að fullyrða nokkuð um það. Hins vegar er rétt að benda á að í málfarsnýjungum er algengt að fallstjórn sagna flakki milli þolfalls og þágufalls, í dæmum eins og negla boltann/boltanum, rústa leikinn/leiknum o.fl.

Svo má velta fyrir sér hvort eitthvað sé við þessa nýjung að athuga. Það er auðvitað ekki nýjung að sögnin lenda taki andlag – það er talað um að lenda skipi þegar í fornu máli og nú er talað um að lenda flugvélum. Vissulega eru merkingarvensl sagnar og andlags önnur í sambandinu lenda stökk(i), en þá má benda á að sögnin er einnig oft notuð í yfirfærðri merkingu – lenda málinu sem merkir 'leiða málið til lykta, ljúka málinu á viðunandi hátt'. Það má halda því fram að lenda stökk(i) sé ekki ósvipað – merkingu sambandsins má orða sem 'enda stökkið á viðunandi hátt'. Þarna er verið að búa til nýtt orðasamband með skýra og afmarkaða merkingu sem blasir við út frá merkingu orðanna sem mynda sambandið. Ég sé ekki betur en þetta samband auðgi málið en spilli því ekki.