Tölum íslensku frekar en íslenska tungumálið

Eins og alkunna er sker íslenska sig frá flestum skyldum málum í því að hafa aðeins ákveðinn greini en engan óákveðinn. Ákveðinn greinir í íslensku er í stórum dráttum notaður á sama hátt og í t.d. dönsku og ensku, en þar sem þau mál nota óákveðinn greini hefur íslenska nafnorðin ein, án nokkurs fylgiorðs. Við segjum ég las bók í gær, í dönsku er sagt jeg læste en bog i går, og í ensku I read a book yesterday. Þar með er búið að kynna bókina til sögunnar og ef vísað er til hennar fljótlega aftur er hún orðin þekkt, ljóst er til hvers er verið að vísa, og þess vegna fær hún ákveðinn greini í öllum málunum, viðskeyttan í íslensku og dönsku en lausan í ensku – bókin var leiðinlegbogen var kedeligthe book was boring. Þetta vitið þið að sjálfsögðu.

Það er þó margvíslegur munur á notkun ákveðins greinis í íslensku og skyldum málum eins og fólk sem hefur lært íslensku sem annað mál hefur komist að – ég hef stundum heyrt að greinirinn sé eitt af því sem erfiðast er að ná fullum tökum á. Helsti munurinn felst í því að í íslensku er oft hægt að hafa orð án greinis í stöðu þar sem verður að nota ákveðinn greini í t.d. ensku og dönsku. Þetta á einkum við ef tilvísun orðs er ótvíræð, t.d. vegna þess að aðeins eitt kemur til greina. Þannig getum við sagt forsætisráðherra flutti ræðu á fundinum en í ensku er alls ekki hægt að segja a prime minister gave a speech at the meeting í sömu merkingu, heldur verður að segja the prime minister. Ef greinirinn er óákveðinn merkir það 'einhver ótiltekinn forsætisráðherra'.

Því er oft haldið fram að notkun ákveðins greinis hafi aukist í íslensku og það er sennilega rétt. Þegar það er skoðað er samt mikilvægt að bera saman sambærilega texta því að notkun greinis er töluvert stílbundin – hann er meira notaður í óformlegu málsniði en formlegu. Þetta má sjá ef við berum saman notkun ákveðins greinis með hversdagslega orðinu bíll og formlega orðinu bifreið. Á tímarit.is eru hátt í fjórum sinnum fleiri dæmi um bifreið mín án greinis en bifreiðin mín með greini. Aftur á móti eru meira en ellefu sinnum fleiri dæmi um bíllinn minn með greini en bíll minn án greinis. Það er því dæmigert að nota formlega orðið án greinis en það hversdagslega með greini. Í sambærilegum dæmum væri reyndar enginn greinir í dönsku eða ensku.

En það er samt líklegt að notkun ákveðna greinisins hafi að einhverju leyti aukist fyrir ensk áhrif. Iðulega sést hann notaður þar sem ekki er hefð fyrir honum í íslensku en enska hefur hann. Það er t.d. algengt, einkum í þýðingum, að talað sé um íslenska máliðíslenska tungumálið eða íslensku tunguna, og nokkuð ljóst að the Icelandic language liggur þar á bak við. Í hefðbundnu máli væri ekki notaður greinir þarna, heldur talað um íslenskt mál og íslenska tungu – en tæplega íslenskt tungumál. Eðlilegast væri þó að nota einfaldlega heiti málsins og tala bara um íslensku í stað þess að nota íslenska sem lýsingarorð með nafnorði. Hitt getur svo sem ekki talist rangt, en ég mæli þó eindregið með því að við höldum okkur við málhefð.