Vítahringur íslenskunnar

Ég hef áður nefnt hér að nýnemar í íslensku við Háskóla Íslands voru færri í haust en nokkru sinni undanfarna hálfa öld og vel það – rétt á annan tuginn. Eins og fjármögnun háskólastigsins er háttað þýðir fækkun nemenda minnkaðar fjárveitingar sem leiða til þess að nýliðun í kennarahópnum verður lítil, námskeiðum fækkar og námsframboð verður fábreyttara – með öðrum orðum: Námið verður ekki eins áhugavert og þess vegna fækkar nemendum enn frekar. Þetta er vítahringur sem ekki er séð hvernig má komast úr og það er grafalvarlegt mál á sama tíma og íslenskan þarf á öllu sínu að halda. Við þurfum að efla íslenskukennslu á öllum stigum, og á bak við það þarf að vera öflugt háskólastarf, bæði kennsla og rannsóknir.

En því miður benda orð háskólaráðherrans á Sprengisandi í morgun ekki til þess að til standi að leggja meiri áherslu á íslenskuna innan Háskólans: „Ef við munum geta stjórnað betur í gegnum öðruvísi fjármögnun háskólanna. Að fjármagna betur nemendur í raunvísindum og STEM greinum, þar sem eru vísindi, verkfræði, tölvunarfræði og slíkar greinar. Sem og í heilbrigðisvísindum. Ef við getum stýrt fjármunum aukalega í þessar greinar þá gætum við verið að svara stórum hluta af kalli atvinnulífsins gagnvart háskólamenntuðum sérfræðingum.“ Ekkert bendir til þess að ætlunin sé að setja meira fé í háskólastigið þannig að „stýrt fjármunum aukalega“ merkir örugglega 'fært fjármuni frá óarðbærum greinum'.

Sannarlega þarf að efla þær greinar sem ráðherra nefndi. En færsla fjárveitinga til þeirra frá öðrum greinum mun leiða til þess að staða hug-, félags- og menntavísinda, þar á meðal íslenskunnar, versnar enn frá því sem nú er, þvert á fyrirheit í stjórnarsáttmála þar sem sagt er „mikilvægt að huga enn betur að íslenskukennslu“. Á sama tíma situr háskólaráðherrann í sérstakri ráðherranefnd um íslenska tungu sem á m.a. að „vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins“. Þarna fer ekki saman hljóð og mynd, eins og nú er sagt. Ef stjórnvöld vilja efla íslenskuna verða þau að sýna þann vilja í verki. Áframhaldandi veiking íslenskunnar í Háskóla Íslands er grafalvarleg og hana verður að stöðva.