Aðgerða er þörf!

Morgunblaðið birtir í dag viðtal við Linu Hallberg sem hefur verið óþreytandi að skrifa ýmsum ráðuneytum og opinberum stofnunum og krefja þau um svör við því hvað verið sé að gera og hvað standi til að gera í málefnum íslensku sem annars máls. „Vandinn er hversu erfitt það er að læra íslensku á Íslandi og þá er það ekki tungumálið sjálft sem er vandamálið“ segir Lina og leggur áherslu á að það er kerfið sem er vandamálið. Það er bráðnauðsynlegt að stjórnvöld átti sig á þessu og grípi til aðgerða nú þegar, og í því sambandi er rétt að vekja athygli á að samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar verður „Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ lögð fram á mánudaginn, 27. mars.

Í þessari tillögu á að birta „aðgerðir sem menningar- og viðskiptaráðherra, forsætisráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og barnamálaráðherra standa að og varða málefni íslenskrar tungu vítt og breitt í samfélaginu í þágu íslenskrar tungu (aðgerðaáætlun)“. Ég vona sannarlega að þessi tillaga verði samþykkt og skili sér m.a. í auknum og bættum stuðningi við kennslu íslensku sem annars máls. Að öðrum kosti eigum við á hættu „að hér komi til að með að búa stór hópur borgara sem ekki kann tungumálið.“ Það er alvarlegt mál sem verður að bregðast við hið fyrsta því að það er nefnilega hárrétt sem Lina segir: „Eft­ir tíu ár verður orðið of seint að grípa inn í.“