Íslenskum tölvuleiki!

Það er vitað að ungt fólk, sérstaklega strákar, spilar mikið tölvuleiki og þeir eru flestir á ensku. Þegar þessir leikir eru til umræðu verður mál spilaranna mjög enskuskotið. Ég hef lengi talað fyrir því að við fáum fleiri tölvuleiki á íslensku – það er ekki síður mikilvægt en þýðingar á hvers kyns sjónvarpsefni. Kannski heldur fólk að það skipti ekki máli að tölvuleikir séu á ensku, eða það sé eitthvert náttúrulögmál að svo sé, eða spilarar hafi engan áhuga á að fá þá á íslensku – en í könnun sem sagt er frá á mbl.is segjast 45,6% svarenda vera til í að spila tölvuleiki á íslensku. Kannski vanmetum við áhuga ungs fólks á því að nota íslensku? Það væri þá ekki í fyrsta skipti – þetta gæti nefnilega verið svipað og með GSM-símana fyrir 20-25 árum.

Þegar GSM-símar komu fram skömmu fyrir aldamótin var viðmót þeirra í upphafi eingöngu á ensku. Þá voru þetta auðvitað fyrst og fremst símar en ekki margmiðlunartölvur með hringimöguleika eins og nú, og texti viðmótsins ekki ýkja mikill. Flestum þótti eðlilegt að þetta væri bara á ensku, eins og viðmótið var yfirleitt á tölvum á þessum tíma – þetta var áður en Windows var þýtt á íslensku. En svo ákvað Síminn, sem þá var nánast eini söluaðili símanna, að prófa að láta þýða viðmót einnar tegundar GSM-síma á íslensku. Þá brá svo við að sala þeirrar tegundar jókst hlutfallslega miklu meira en annarra síma. Í framhaldinu var svo farið að þýða fleiri tegundir. Er nú ekki um að gera að prófa þetta með leikina?