Skítsælt eða saurljótt?

Í gær var spurt hér út í lýsingarorðið skítsæll sem fyrirspyrjandi hafði heyrt notað í merkingunni 'sem hrindir frá sér óhreinindum' eða eitthvað slíkt og vildi forvitnast um hvort sú merking væri algeng. Venjuleg merking orðsins er 'sem safnar auðveldlega á sig óhreinindum' þannig að í því tilviki sem spurt var um hafði merkingunni verið snúið á haus. Það er kannski ekkert undarlegt – skítsæll er ekki algengt orð, aðeins um 120 dæmi frá síðustu 130 árum á tímarit.is, og það má alveg halda því fram að það sé ekki mjög gagnsætt merkingarlega vegna þess að oftast er sæll jákvætt orð í huga fólks. En í samsetningum merkir það oft 'sem safnar að sér' eða 'sækir ' – auðsæll safnar að sér auð, vinsæll safnar að sér vinum, skítsæll safnar að sér skít.

Elsta dæmi um orðið er í Ísafold 1892: „Hve skíturinn er sumum mönnum eiginlegur, má meðal annars sjá af því, að sumstaðar eru menn kallaðir mis-»skítsælir«; jeg hef meira segja heyrt menn vera drjúga af því að vera það, því það sje auðsmerki.“ Í Bjarka 1902 segir um þjóðflokk á Borneó: „Þeir eru fram úr hófi skítsælir; þeir skýla sjer með óhreinum tuskum, sem þeir binda um lendar og höfuð.“ Í Lögbergi 1904 segir: „Skítsæll, tóbakstiggjandi og spýtandi maður ætti þó að taka dálítið tillit til konunnar sinnar, sem er að reyna til að þrífa heimili hans og halda því hreinu.“ Fjögur elstu dæmin um orðið vísa til fólks, og mér finnst merkingin þarna ekki bara vera 'sem safnar auðveldlega á sig óhreinindum', heldur til viðbótar 'og finnst það í lagi'.

Þetta samræmist öðrum samsetningum með -sæll sem langflestar vísa eingöngu til fólks, en fljótlega var þó farið að nota skítsæll um hluti: „Ekki gátu þeir gert þetta til að spara efnið og skítsælli eru skálmarnar að neðan“ segir í Þjóðviljanum 1905. Eftir það virðist orðið sjaldan notað um fólk, nema í háði eins og í erindi Helgu Sigurjónsdóttur á Rauðsokkafundi 1970: „Eftir sápuauglýsingum að dæma virðast konur vera mjög skítsælar.“ Raunar er orðið mjög sjaldgæft á prenti fram yfir 1980, en á seinustu áratugum er það stundum notað í auglýsingum sem eru birtar hvað eftir annað og það hleypir tíðninni nokkuð upp. Orðið er þó mun meira notað í óformlegu málsniði – 89 dæmi eru um það í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar.

Þegar ég fór að skoða þetta orð rakst ég fljótlega á annað orð sem gefið er sem samheiti við skítsæll í Íslenskri samheitaorðabók. Það er orðið saurljótur sem ég kannaðist ekki við, enda virðist það vera alveg horfið úr málinu – ekki nema 20 dæmi á tímarit.is, þar af aðeins eitt eftir 1956. Þetta orð er mun eldra – elsta dæmi um það er í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu frá 1540: „hverjum sá skammsamlegur lýður alla meinbægni gjörði meður þeirra saurljótu líferni.“ Þarna er reyndar ekki víst að orðið hafi sömu merkingu, en hún er a.m.k. komin til í Ritum Lærdómslistafélagsins í lok 18. aldar: „en viðurinn verður að vera hreinn, því fiskurinn er viðkvæmur og saurljótur.“ Öfugt við skítsæll er saurljótur aldrei notað um fólk.

Það má halda því fram að saurljótur sé „betra“ orð en skítsæll, í þeim skilningi að báðir orðhlutarnir, saur og ljótur, hafa neikvæða merkingu og vissulega þykir neikvætt að vera skítsæll/saurljótur. Á hinn bóginn getur verið að þetta hafi unnið gegn orðinu – það hafi einfaldlega þótt óviðeigandi og þess vegna hafi skítsæll, sem upphaflega hafi verið notað um fólk eins og flestar aðrar samsetningar með -sæll og haft merkinguna 'sem safnar auðveldlega á sig óhreinindum (og finnst það í lagi)', verið gripið í staðinn sem eins konar skrauthvörf. Þetta eru vissulega bara vangaveltur en mér finnst þetta ekkert útilokað. En hvað sem því líður er æskilegt að halda sig við hefðbundna merkingu orðsins skítsæll – eða endurvekja saurljótur.