Að pilla sig
Í gær var hér spurt um sögnina pilla í sambandinu pilla sig. Guðrún Kvaran skrifaði stuttan pistil um þessa sögn á Vísindavefnum árið 2011. Þar segir: „Sögnin pilla sig (einnig með þágufalli pilla sér) er notuð í óformlegu máli um að 'fara, koma sér burt, drífa sig'. Hún er nær eingöngu notuð neikvætt í skammartóni: „Pillaðu þig burt“, „Pillaðu þig á fætur“. Hún virðist notuð í málinu í þessari merkingu frá því snemma á 20. öld. Að baki liggur sögnin að pilla 'reyta, tína' sem er tökuorð úr dönsku pille frá 19. öld en í dönsku er sambandið pille af notað á sama hátt og pilla sig/sér í íslensku, til dæmis „pil af med dig!“ 'komdu þér í burtu'.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er pilla sig hins vegar skýrð hlutlaust – 'fara burt, fara'.
Elsta dæmi sem ég finn um pilla sig er í Dagskrá 1897: „Þá eru það sælustundirnar kláranna, að standa bundnir meðan riddararnir eru að „pump“ bjórinn á drykkjukránum við veginn. Þess á milli fá þeir að „pilla sig“.“ Annað dæmi er í Nirði 1916: „Peningamennirnir yrðu að „pilla“ sig burt, þangað, sem eitthvað væri fáanlegt fyrir peningana.“ Fyrsta og önnur persóna koma síðar: „En á meðan jeg fór úr, þá skelti Ragnhildur sjer í dívaninn og sagðist vera orðin svo syfjuð, að hún yrði að fara að sofa, og mætti jeg því til með að pilla mig“ segir í Harðjaxli réttlætis og laga 1926, og „Þú hefur ekkert hingað að gera, þú getur pillað þig heim“ segir í Eimreiðinni 1949. En vissulega má búast má við að orðið hafi verð algengara í talmáli en riti.
Þágufallið sést fyrst í Morgunblaðinu 1971: „Og vertu viðbúinn að pilla þér út úr framboðinu til þingsins þann dag.“ Í Vísi 1981 segir: „Ég pillaði mér burt en maðurinn reyndi að stumra yfir stúlkunni.“ Í Tímanum 1982 segir: „Eins gott að pilla sér.“ En þágufallið hefur sótt mjög á í seinni tíð, eins og marka má af því að í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru hátt í þrisvar sinnum fleiri dæmi um pilla mér / þér / sér en um pilla mig / þig / sig. Ekki er gott að segja hvers vegna þágufallið kemur upp og nær yfirhöndinni. Sambandið pilla sig er e.t.v. borið saman við önnur sambönd með þolfalli eins og drífa sig, hypja sig eða eitthvað slíkt, en pilla sér gætu verið áhrif frá þágufallssamböndum eins og koma sér eða jafnvel drulla sér.
Þegar sögnin er notuð í boðhætti er hún „nær eingöngu notuð neikvætt í skammartóni“ eins og Guðrún Kvaran segir. En öðru máli gegnir hins vegar þegar mælandi notar hana um sjálfan sig, annaðhvort í fyrstu eða þriðju persónu. Í Vorinu 1968 segir: „Það er víst bezt að pilla sig.“ Í Degi 1983 segir: „Það var því ekki um annað að gera en að pilla sig heim.“ Í Vikunni 1979 segir: „Ég veit að þar sem ég er orðin tvítug og vel það, þá ætti ég nú að pilla mig og leyfa þeim að vera í friði.“ Á Bland.is 2006 segir: „Jæja, það er allt orðið svo rólegt hér svo ég er að hugsa um að pilla mér upp í rúm.“ Þarna er ekki um skammartón að ræða og merkingin hlutlaus eins og lýst er í Íslenskri nútímamálsorðabók – þetta merkir að mál sé til komið að færa sig um set.