Nýju verkalýðsfélög ríkisins
Í kverinu Gætum tungunnar segir: „Sagt var: Þeir ganga í nýju verkalýðsfélög ríkisins. Rétt væri: Þeir ganga í ný verkalýðsfélög ríkisins. Eða: Þeir ganga í hin nýju verkalýðsfélög ríkisins.“ Þetta skýrist af þeirri almennu reglu að (í máli flestra) er ákveðinn greinir ekki hafður á nafnorði sem tekur með sér annað nafnorð í eignarfalli (eignarfallseinkunn – *bókin Jóns). Þótt við getum sagt þeir ganga í nýju verkalýðsfélögin gengur *þeir ganga í nýju verkalýðsfélögin ríkisins ekki, heldur verður að sleppa greininum og þá fáum við þeir ganga í nýju verkalýðsfélög ríkisins. En það leysir samt ekki vandann því að venjulega standa lýsingarorð í veikri beygingu, eins og nýju þarna, aðeins með ákveðnum nafnorðum, eins og verkalýðsfélögin.
Þess vegna er setningin þeir ganga í nýju verkalýðsfélög ríkisins ekki talin rétt í Gætum tungunnar en settar fram tvær tillögur í staðinn. Önnur er þeir ganga í ný verkalýðsfélög ríkisins – þar er lýsingarorðið haft í sterkri beygingu í stað veikrar, ný í stað nýju. Eins og áður segir standa lýsingarorð í veikri beygingu venjulega með ákveðnum nafnorðum, þ.e. nafnorðum með ákveðnum greini (nýju verkalýðsfélögin), en lýsingarorð í sterkri beygingu með óákveðnum nafnorðum (ný verkalýðsfélög). Þetta gengur því upp setningafræðilega en gallinn við það er að merkingin er ekki alveg sú sama. Ef sagt er þeir ganga í ný verkalýðsfélög ríkisins er eins og verið sé að kynna þessi félög til sögunnar – þau hafi ekki verið nefnd áður. Það er óheppilegt.
Hinn kosturinn sem nefndur er í Gætum tungunnar er að nota lausan greini í stað þess viðskeytta – þeir ganga í hin nýju verkalýðsfélög ríkisins. Það gengur vissulega upp setningafræðilega því að lausi greinirinn lýtur öðrum lögmálum á því sviði en sá viðskeytti. En í staðinn kemur annar vandi – hætta á stílbroti. Mörður Árnason segir um dæmi af þessu tagi í Málkrókum: „Hugsanlega á hér þátt feimni við lausa greininn, að mönnum finnist ankannalegt að nota hinn – hin – hið framanvið lýsingarorðið og nafnorðið, óþarflega stirt og hátíðlegt. Á því hefur að minnsta kosti borið síðari ár að ritfært fólk og vel máli farið, einkum af yngri kynslóð, forðast þetta stílbrigði, væntanlega af því að það hefur hátíðlegan blæ og getur valdið stirðleika.“
Þetta er alveg rétt og samræmist t.d. því að dæmi um lausan greini í þeim hluta Risamálheildarinnar sem helst sýnir óformlegt málsnið, samfélagsmiðlahlutanum, eru margfalt færri en í öðrum hlutum hennar. En Mörður bendir reyndar á fleiri leiðir en nefndar eru í Gætum tungunnar. Í staðinn fyrir að nota eignarfallseinkunn í útgerðin er nauðsynlegi hluti atvinnulífsins megi setja forsetningarlið og segja nauðsynlegi hlutinn af atvinnulífinu eða snúa orðaröðinni við og segja atvinnulífsins nauðsynlegi hluti – sem hann viðurkennir að vísu að sé „á jaðri venjulegrar íslensku“. En Mörður hallast þó að lausa greininum og segir: „Í réttu samhengi er þetta málform einsog konungur á veldisstóli, og stundum er einskis annars kostur.“
Ég verð að játa að mér finnst enginn kostur góður í þessu. Mér finnst setningar eins og sú sem amast er við í Gætum tungunnar, þeir ganga í nýju verkalýðsfélög ríkisins, ekki fullkomlega eðlilegar, og ekki heldur seldar voru veitingar í nýja mötuneyti skólans, nýju nemendur hefja nám í dag, en eldri á morgun, útgerðin er nauðsynlegi hluti atvinnulífsins og ríkisendurskoðun er góði hirðir opinberra stofnana svo að vitnað sé í dæmi úr Gætum tungunnar og Málkrókum. En mér finnst ekki ganga að nota sterka beygingu í þessum dæmum því að það breytir merkingunni, og mér finnst lausi greinirinn oftast of formlegur. Fyrir utan einhvers konar umorðun er líklega þrátt fyrir allt skást að segja það sem „sagt var“ í Gætum tungunnar.