Hundruðir

Orðin hundrað og þúsund eru oft spyrt saman sem von er vegna merkingarlegrar hliðstæðu, en á þeim er einn grundvallarmunur – þúsund var þegar í fornu máli til sem bæði kvenkynsorð og hvorugkynsorð og hvort tveggja er fullkomlega viðurkennt í nútímamáli, en hundrað er aðeins viðurkennt sem hvorugkynsorð. Í kverinu Gætum tungunnar segir t.d.: „Sést hefur: Hundruðir manna voru drepnir. Rétt væri: Hundruð manna voru drepin. (Fleirtalan af hundrað er hundruð, en af þúsund ýmist þúsund eða þúsundir.)“ Kvenkynsmyndin hundruðir sem þarna er varað við er þó mjög algeng í nefnifalli og þolfalli fleirtölu – hátt á þriðja þúsund dæma er um hana á tímarit.is og á fimmta þúsund í Risamálheildinni, þar af talsverður hluti úr formlegu málsniði.

Elsta dæmi sem ég finn um kvenkynsfleirtöluna hundruðir er í Lögbergi 1895, og nokkur elstu dæmin eru úr vesturíslensku blöðunum þar sem þessi fleirtala var alla tíð algeng. En í Morgunblaðinu 1916 segir: „Hundruðir þúsunda hraustra ungra manna hafa fallið á vígvellinum fyrir Þýzkaland“, og upp úr því sést slæðingur af dæmum um þessa fleirtölu í íslenskum blöðum þótt hún verði aldrei mjög algeng á prenti enda löngum amast við henni. Elsta dæmi sem ég finn um athugasemd við hana er í Einingu 1954 þar sem vitnað er í erindi Magnúsar Finnbogasonar menntaskólakennara sem sagði: „Ekki hundruðir – heldur hundruð.“ Fjölmörg önnur dæmi má finna, t.d. fjallaði Gísli Jónsson margsinnis um hundruðir í Morgunblaðinu.

Varla leikur vafi á því að kvenkynsfleirtalan hundruðir hefur orðið til fyrir áhrif frá kvenkynsfleirtölunni þúsundir. Það hefði e.t.v. mátt búast við að myndin yrði hundraðir, þ.e. eintalan hundrað væri tekin og bætt við hana fleirtöluendingu kvenkyns, -ir. Vissulega má finna fáein dæmi um hundraðir og Þórunn Guðmundsdóttir sagði t.d. í Morgunblaðinu 1989: „Stundum hefi ég heyrt menn segja; „hundraðir“ í útvarpi. Seinast Bjarna Felixson í gær. Ætti þá eintalan að vera einn „hundruður“ samkvæmt því.“ En venjulega er þó fleirtöluendingu kvenkyns, -ir, bætt við fleirtölumynd hvorugkyns, hundruð. Því má segja að fleirtalan sé táknuð á tvennan hátt í hundruðir, bæði með hljóðbreytingunni a > u og með endingunni -ir.

Í þessu sambandi má benda á að hundrað er aldrei notað í kvenkyni í eintölu (sem ætti þá væntanlega að vera hundruð) – aldrei sagt *ein hundruð. Sama máli gegnir raunar með þúsund – andstætt því sem segir á Vísindavefnum er kvenkyn þess orðs varla til nema í fleirtölu eins og Málfarsbankinn bendir á. Í lesendabréfi í Alþýðublaðinu 1940 var þó spurt: „Hvort er réttara, að segja eitt þúsund eða ein þúsund, eins og t. d. Helgi Hjörvar gerir?“ Hannes á horninu svaraði: „Það mun réttara að segja ein þúsund, því að þúsund er kvenkyns. Það er víst yfirleitt óhætt að reiða sig á íslenzkuna hans Hjörvars.“ Það er þó væntanlega eðlilegt að líta svo á að spurningin snúist um kyn orðsins fremur en hvort eðlilegt sé að nota kvenkynið í eintölu.

En fleira er sérstakt um orðið hundrað. Í Málfarsbankanum segir: „Orðið hundrað er ýmist nafnorð í hvorugkyni (hundrað manna; ég mætti hundruðum manna á leiðinni) eða óbeygjanlegt lýsingarorð (hundrað manns; hundrað menn; ég mætti hundrað mönnum á leiðinni).“ Þetta samræmist því að hægt er að nota manns með hundrað en yfirleitt er eingöngu hægt að nota manns með óbeygjanlegum tölum (átta, tólf, tuttugu o.s.frv.) og tölum sem líta út fyrir að vera óbeygjanlegar (þúsund) eða eru hafðar óbeygðar (milljón). En hundrað er þó ekki óbeygjanlegt með öllu í stöðu lýsingarorðs – þótt það fallbeygist ekki beygist það í tölu, því að sagt er ég mætti tvö hundruð mönnum á leiðinni, alls ekki *tvö hundrað mönnum.

Hegðun talna og töluorða er um margt sérstök og flókin, eins og ég hef t.d. nýlega skrifað um í sambandi við númer – stundum beygjast tölur ekki þótt við því væri að búast út frá setningarlegri stöðu þeirra. En hér er ekki vettvangur til að gera því efni ítarleg skil, og hvað sem því líður er mál til komið að taka fleirtöluna hundruðir í sátt. Hún er eðlileg hliðstæða við þúsundir, á sér meira en hundrað ára sögu í málinu, er mjög algeng, og hefur náð fótfestu í formlegu málsniði eins og sjá má af tíðni hennar í prentuðum dagblöðum. Hún fullnægir öllum skilyrðum sem eðlilegt er að setja fyrir því að teljast málvenja og þar með eru engar forsendur eru til annars en telja hana rétt og eðlilegt mál.