Ég bý á númer tvö

Hvorugkynsorðið númer er tökuorð í íslensku, komið inn í málið um 1800 úr nummer í dönsku sem aftur er komið af numerus í latínu eins og fram kemur í Íslenskri orðsifjabók. Orðið beygist eins og önnur sterk hvorugkynsorð – bætir við sig -i í þágufalli og -s í eignarfalli eintölu, númeri og númers, og svo -um í þágufalli og -a í eignarfalli fleirtölu, númerum og númera. Í Skuld 1882 segir t.d.: „Mun þess getið aftast á hverju númeri, hvenær næsta blað komi út.“ Í Fréttablaðinu 2013 segir: „Júní er skoðunarmánuður bíla með 6 í endastaf númers.“ Í Þjóðviljanum 1940 segir: „Á morgun er síðasti dagur, sem menn eiga rétt á sömu númerum sem í fyrra.“ Í Alþýðublaðinu 1970 segir: „Mér hefur skilizt, að þetta sé 200 númera stöð.“

Þrátt fyrir þetta er mjög algengt að númer sé haft óbeygt – taki ekki þær endingar sem búast mætti við út frá setningarstöðu. Í Fálkanum 1961 segir: „Ég, segir hún, ég bý á númer sjö.“ Í Fréttablaðinu 2004 segir: „Sparisjóður Vélstjóra er í númer 18 og hefur verið í mörg ár.“ Í Morgunblaðinu 1991 segir: „Annars er söguþráðurinn þessi að drengurinn litli úr númer eitt er nú tekinn í fóstur hjá Simpson-fjölskyldunni.“ Í Morgunblaðinu 1932 segir: „Hver maður hefir sitt númer, frá númer 2 til númer 37.“ Í Vísi 1981 segir: „Áður hefur verið synjað um slíkt leyfi vegna númer 8, Fjalakattarins.“ Þarna stendur númer á eftir forsetningum sem ýmist stjórna þágufalli eða eignarfalli og því hefði mátt búast við númeri eða númers – en það er útilokað.

Þetta gildir eingöngu ef einhver tala kemur á eftir orðinu númer – annars beygist það eins og við væri að búast og dæmi voru sýnd um hér að framan. En það er ekki bara númer sem er óbeygt við þessar aðstæður – tölurnar sem koma á eftir beygjast ekki heldur. Það kemur að vísu ekki fram í þessum dæmum þar sem tölurnar eru flestar skrifaðar með tölustöfum, en við vitum vel að það er ekki sagt t.d. *frá númer(i) tveim. Sama máli gegnir um tölur sem standa á eftir öðrum nafnorðum eins og í kafla tvö, ekki *í kafla tveim, á síðu þrjú, ekki *á síðu þrem, o.s.frv. Að vísu er hugsanlegt að líta svo á að þarna sé orðið númer að baki þótt það sé ekki sagt – í kafla númer tvö, á síðu númer þrjú o.s.frv. – en það skiptir í sjálfu sér ekki máli hér.

Tölurnar beygjast aðeins ef þær hafa tölugildi, ekki ef þær eru notaðar sem einhvers konar einkennismark. Við getum sagt ég bý í tveimur húsum en hins vegar ég bý á (númer) þrjátíu og tvö, ekki *þrjátíu og tveimur. Í þessu tilviki er (númer) þrjátíu og tvö eins konar heiti hússins sem ég bý í – það merkir ekki að þetta sé þrítugasta og annað hús í götunni. Ef orðið númer er notað á undan tölunni dregur það dám af henni og beygist ekki eins og fram hefur komið. En ef tölur einar og sér eru notaðar sem heiti einhvers fyrirbæris standa þær yfirleitt í karlkyni og beygjast. Á Laugavegi 22 í Reykjavík var lengi rekið Veitingahúsið 22 sem venjulega gekk undir nafninu Tuttugu og tveir. Fólk fór á Tuttugu og tvo og var á Tuttugu og tveimur.