Edda og íslenskan

Gleðilegt sumar! Sem fyrrverandi kennara í íslensku var mér boðið að vera við vígslu húss íslenskunnar, Eddu, í fyrradag, og í gær fór ég aftur í húsið til að skoða það betur og stóð lengi við. Mér finnst þetta stórkostlegt hús – gjörhugsað og glæsilegt, en án alls íburðar. Það er mikilsvert að þarna verður hægt að sýna almenningi helstu dýrgripi íslenskrar bókmenningar. Fyrir fimm árum sátum við hjónin um mánaðarskeið á bókasafni Trinity College í Dublin og horfðum daglega út um gluggann á langa biðröð fólks sem beið eftir að skoða þjóðardýrgrip Íra, Book of Kells. Það er vissulega falleg og merkileg bók en ekki hóti merkilegri en Flateyjarbók eða Konungsbók eddukvæða. Vonandi verður brátt komin röð fyrir utan Eddu.

Nafnið Edda var eiginlega sjálfgefið á þetta hús – hefur skírskotun til fornbókmenntanna, er lipurt og meðfærilegt, og er þekkt á alþjóðavettvangi. Það er samt mikilvægt að nafngiftin leiði ekki til þess að fólk tengi húsið og þá starfsemi sem þar á að fara fram eingöngu við fornan menningararf, því að þótt frábært sé að geta loks sýnt handritunum þann sóma sem þau eiga skilið er ekki síður nauðsynlegt að hlúa að íslenskunni á okkar tímum, efla hana og styrkja á allan hátt. Þess vegna þarf þjóðinni að finnast að hún eigi þetta hús og eigi erindi í það, og starfið sem þar fer fram komi henni við. Talið er að 12-14 þúsund manns hafi komið að skoða húsið í gær og það gefur vísbendingu um að þjóðin hafi áhuga á húsinu og væntanlegri starfsemi þar.

Meðal þess sem nú er brýnt að gera er að fjölga nemendum í íslensku en þeim hefur farið fækkandi undanfarin ár eins og ég hef áður skrifað um. Ég heiti á ykkur öll að hvetja ungt fólk sem þið þekkið til að kynna sér íslenskunám. Ég hef orðið var við að framhaldsskólanemar óttast oft að þau séu að loka einhverjum leiðum eða jafnvel fara inn í blindgötu með því að fara í háskólanám í íslensku – þau komist ekki í skiptinám til útlanda, og námið nýtist þeim hvergi nema á Íslandi og aðeins á þröngu sviði. Þau standa líka oft í þeirri meiningu að í háskólanámi í íslensku sé bara verið að gera meira af því sama og þau hafa verið að gera í skólagöngu sinni fram að því. En ef þau ákveða samt að taka áhættuna komast þau fljótt að raun um annað.

Íslenskunám er nefnilega í senn þjóðlegt og alþjóðlegt og nýtist á fjölmörgum sviðum. Forsætisráðherra er t.d. með meistaragráðu í íslensku, og ég er alltaf að rekast á gamla nemendur í ýmsum störfum sem í fljótu bragði virðast alls óskyld íslenskunni, en undantekningarlaust segja þau mér að íslenskunámið hafi komið þeim að góðu gagni. Bæði íslenskt mál og íslenskar bókmenntir eru líka alþjóðleg rannsóknarefni sem fengist er við á fræðilegum grundvelli í fjölda erlendra háskóla. Með aukinni áherslu á þverfaglegar rannsóknir og fræði undanfarin ár hafa líka skapast forsendur fyrir því að flétta íslenskt mál og bókmenntir saman við ýmsar aðrar greinar og setja þannig hefðbundin rannsóknarefni í nýtt og spennandi samhengi.

Hina alþjóðlegu skírskotun íslenskunnar og íslenskrar menningar má marka af því að fjöldi erlendra stúdenta kemur til landsins á hverju ári til að stunda nám í íslenskum miðaldafræðum, og íslenska sem annað mál er fjölmennasta kennslugrein Háskólans um þessar mundir. Við getum velt fyrir okkur hvers vegna íslenskir nemendur sæki ekki meira í háskólanám í íslensku en raun ber vitni, en ástæðurnar fyrir því skipta svo sem litlu máli svo lengi sem okkur tekst ekki að snúa þeirri þróun við. Það er það sem við þurfum að leggja áherslu á – ekki með því að tala um viðkvæma stöðu íslenskunnar eða höfða til þjóðerniskenndar, heldur með því að leggja áherslu á að íslenskunám er skemmtilegt og hagnýtt, en fyrst og fremst fræðandi og þroskandi.