Óhylti

Í áhugaverðu samtali Gunnars Smára Egilssonar við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Silju Báru Ómarsdóttur á Samstöðinni var nefnt að það ylli vandkvæðum í umræðu um öryggismál að í íslensku væri eitt og sama orðið, öryggi, notað bæði um það sem heitir security og safety á ensku – sikkerhed og tryghed á dönsku. Orðið security merkir „protection of a person, building, organization, or country against threats such as crime or attacks by foreign countries“ eða 'vernd fólks, bygginga, stofnana eða ríkis fyrir ógnunum svo sem glæpum eða árásum erlendra ríkja'; en safety merkir „a state in which or a place where you are safe and not in danger or at risk“ eða 'aðstæður eða staður þar sem fólk er öruggt og ekki í hættu eða einhvers konar áhættu'.

Það er oft vitnað í frægar ljóðlínur Einars Benediktssonar: „Ég skildi, að orð er á Íslandi til um allt, sem er hugsað á jörðu.“ Við vitum svo sem að þetta er ofsagt en hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að orðaforði tungumála, og deiling merkingar á orð, er ólíkt milli mála. Íslenskan endurspeglar ekki nákvæmlega orðaforða einhverra annarra tungumála og þótt enska og danska geri einhvern greinarmun er ekki sjálfgefið að íslenska þurfi að gera það líka. Ef það kemur upp, t.d. í þýðingum, að okkur finnist vanta orð í íslensku til að samsvara erlendu orði er oft hægt að leysa það með orðasambandi, umorðun eða útskýringu. Ég skrifaði t.d. einu sinni pistil þar sem ég rökstuddi að óþarfi hefði verið að búa til orðið leikbreytir til að þýða game changer.

Það breytir því ekki að stundum getur verið mikilvægt til að forðast misskilning að hafa mismunandi orð fyrir ólík fyrirbæri. Eins og fram hefur komið snýst öryggi um öryggi ríkisins annars vegar, það sem hefðbundið er að flokka undir öryggis- og varnarmál, en öryggi almennings hins vegar, t.d. gagnvart ofbeldi á götum úti eða heimilisofbeldi, en líka fjárhagslegt og félagslegt öryggi, öryggi gagnvart náttúruvá o.fl. Þetta tvennt er gerólíkt og þarf ekki að fara saman – fólk getur búið við ýmiss konar óöryggi þótt ríkið sem það býr í sé öruggt gagnvart árásum erlendra ríkja, og fólk getur verið öruggt á heimavelli í ríkjum sem búa við óöryggi vegna ytri ógnunar. Það væri hentugt að mínu mati að hafa mismunandi orð um þetta tvennt.

„Málfræðingarnir redda þessu bara“ sagði Gunnar Smári í áðurnefndu samtali. Það er hægara sagt en gert, en þó má reyna. Ég fór að leita í orðabókum og staðnæmdist við lýsingarorðið óhultur sem er eitt þeirra samheita sem gefin eru við öruggur í Íslenskri samheitaorðabók. Mér datt í hug hvort hugsanlegt væri að mynda nafnorðið óhylti með i-hljóðvarpi af óhultur, á sama hátt og öryggi er myndað af öruggur. Þegar betur var að gáð reyndist þetta orð vera til – í ekki ómerkari bók en Danskri orðabók með íslenskum þýðingum eftir Konráð Gíslason frá 1851. Þar er orðið Almeensikkerhed þýtt sem 'alþjóðlegt óhylti' en Borgersikkerhed þýtt sem 'þegnleg óhylti' og bætt við til skýringar „sú vernd sem þegnarnir hafa af því ríki sem þeir eru í“.

Orðið óhylti, sem kemur hvergi fyrir annars staðar svo að ég viti, er þarna ýmist notað í kvenkyni (þegnleg óhylti) eða hvorugkyni (alþjóðlegt óhylti) – hvort tveggja getur staðist formsins vegna. Í því sambandi má benda á að athygli, sem er myndað af athugull á sama hátt, var til skamms tíma ekki síður notað í hvorugkyni en kvenkyni þótt kvenkynið hafi orðið ofan á í nútímamáli – en hvorugkynið skýrir s-ið í athyglisverður. Vitanlega þarf að venjast óhylti eins og öðrum nýjum orðum en þetta er gott og gagnsætt orð. Ég legg til að það verði haft í hvorugkyni og notað í staðinn fyrir öryggi í merkingunni 'almannaöryggi' (e. safety) – ef ástæða þykir til nánari skilgreiningar má þá tala um fjárhagslegt óhylti, félagslegt óhylti o.s.frv.