Rantað um rant

Í Málvöndunarþættinum var nýlega spurt um merkingu orðsins ranta sem kom fyrir í frétt á vef Mannlífs fyrir nokkrum dögum: „Og Kristjáni Berg ofbýður það sem hann kallar væl þjóðarinnar og heldur áfram að ranta í málinu.“ Sjálfur gaspraði ég um það fyrir tveimur árum að undirtitill væntanlegrar bókar minnar yrði „Reiðareksmaður rantar“. Sögnin ranta og nafnorðið rant eru komin úr ensku en sjást æ oftar í íslensku og eru skýrð ágætlega í ritdómi eftir Inga Frey Vilhjálmsson í DV 2011: „Í íslensku er ekki til neitt orð sem hefur nákvæmlega sömu merkingu og enska orðið „rant“ sem getur þýtt löng einræða, gjarnan innblásin og afdráttarlaus jafnvel rauskennd, um eitthvert viðfangsefni sem viðkomandi er hugleikið.“

Elsta dæmi sem ég finn um nafnorðið rant í prentmiðlum er í áðurnefndum ritdómi í DV 2011, þar sem segir: „Mælskir menn og hugmyndaríkir taka gjarnan slík rönt þar sem þeir vaða elginn og fara úr einu í annað á skemmtilegu flugi.“ Þarna er orðið meira að segja í fleirtölu sem er annars mjög sjaldgæft. Sami höfundur segir í öðrum ritdómi sama ár: „Stíllinn er rantkenndur“. Annars sést orðið ekki fyrr en í Fréttablaðinu 2015 – „Ég er hrifin af ranti og tuði yfirleitt“. Sögnin ranta kemur fljótlega á eftir – í Fréttablaðinu 2016 segir: „Það er í eðli rappara að ranta fullir sjálfstrausts og deyja fyrir málstaðinn en auðvitað veit maður aldrei fyrirfram hvað fólki finnst.“ Upp úr þessu fjölgar svo dæmunum smátt og smátt, en eru vissulega sárafá enn.

Öðru máli gegnir um samfélagsmiðla – þar hafa þessi orð verið algeng í tuttugu ár. Elstu dæmi sem ég finn eru á Hugi.is árið 2000, bæði um nafnorðið og sögnina – „einnig finnst manni rantið á þessarri títtnefndu síðu ansi líkt því sem viðgekkst á Genesis heimasíðunni“ og „að ég sé að ranta á síðu míns félags kemur ekkert sárindum við“. Karlkynsmyndin rantur kemur líka stundum fyrir – „Hef alltaf gaman af vel skrifuðum ranti“ á Málefnin.com 2004. Það er ekkert óalgengt að ný tökuorð flakki milli kynja í fyrstu en festist svo í ákveðnu kyni og hér hefur hvorugkynið orðið ofan á – karlkynsdæmi eru mjög fá í seinni tíð. Einnig er til orðið rantari um fólk sem rantar – „Hún er alveg jafn mikill rosalegur rantari og þú“ segir á Bland.is 2012.

En er þetta góð og gild íslenska? Vitanlega eru orðin ensk að uppruna en ætternið er ekki nægileg ástæða til að hafna þeim – fjöldi enskra tökuorða nýtur viðurkenningar í málinu. Orðin falla líka vel að málinu – ranta er hliðstætt sögnum eins og vanta, panta, planta o.fl. Karlkynsmyndin rantur er hliðstæð fantur, trantur, pantur o.fl. – hvorugkynsmyndin rant á engar algerar hliðstæður en hljómar samt ekkert óeðlilega. En auðvitað getur fólk haldið því fram að engin ástæða sé til að taka þessi orð orð inn í málið – við höfum orð eins og þus(a), raus(a), fjas(a) o.fl. Mér finnst samt ekkert þessara orða hafa alveg sömu merkingu og rant(a) og er sammála Inga Frey sem áður var vitnað til um að ekkert samsvarandi orð sé til í íslensku.

Sagnirnar þusa, rausa og fjasa eru allar svipaðrar merkingar og skýrðar hver með annarri í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þannig er þusa skýrð 'rausa, fjasa, nöldra'; rausa er skýrð 'röfla mikið, nöldra, fjasa' og fjasa er skýrð 'þusa, nöldra'. Sögnin nöldra kemur fyrir í öllum skýringunum, og hún er skýrð kvarta (um e-ð), finna sífellt að (e-u)'. Merking þessara sagna er sem sé frekar neikvæð, en rant þarf ekki endilega að vera neikvætt þótt svo geti vissulega verið. Ég hef líka á tilfinningunni að fólk tengi þus, raus og fjas fremur við talað mál þótt auðvitað sé líka hægt að þusa, rausa og fjasa í rituðu máli. Sögnin ranta er aftur á móti mjög oft notuð um skrif á netinu þar sem sannarlega er hægt að finna meira en nóg af ranti.

Orðin rant og ranta laga sig algerlega að íslensku hljóðkerfi – opna frammælta sérhljóðinu [æ] er skipt út fyrir íslenskt a og raddaða n-inu er skipt út fyrir óraddað n í máli flestra þannig að enskt [rænt] verður íslenskt [ran̥t]. Þau laga sig líka að beygingarkerfinu – bæta við sig endingum þar sem við á og hljóðverpast líka eins og sjá má á fleirtölunni rönt sem áður er nefnd. Þetta eru því íslensk orð. Þau merkja ekki nákvæmlega sama og orð sem fyrir eru í málinu og koma því ekki í stað þeirra, heldur auðga orðaforðann. Þau standast öll viðmið sem eðlilegt er að hafa um málvenju og verða því að teljast rétt mál. Auðvitað verður hver að meta þessi orð fyrir sig, en mér finnst ástæðulaust að amast við þeim og er farinn að nota þau sjálfur.