Skammt á milli hláturs og gráturs
Í viðtali sem ég var að lesa í netmiðli var haft eftir viðmælanda: „Já, það er stutt á milli hláturs og gráturs.“ Það minnti mig á að beygingarmyndin gráturs hefur stundum verið til umræðu, bæði í þessum hópi og Málvöndunarþættinum. Oft er þá vitnað í Málfarsbankann sem segir: „Ef.et. gráts (ekki „gráturs“) sbr. oft er skammt milli hláturs og gráts.“ Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er eingöngu gefin eignarfallsmyndin gráts. Þótt orðin hlátur og grátur rími saman í nefnifalli er sá munur á þeim að í hlátur er r stofnlægt, þ.e. helst í öllum föllum, en í grátur er það nefnifallsending og ætti því ekki að koma fram í öðrum föllum. En undir hlátur í Íslenskri orðabók er þó gefið dæmið „oft er skammt milli hláturs og gráturs“.
Oft hefur þó verið amast við myndinni gráturs. Í þætti sínum í Morgunblaðinu 1998 greindi Gísli Jónsson frá bréfi sem honum hafði borist um þetta mál og sagði: „Á stuttum tíma, að við ætlum, hafa mjög margir tekið upp á því að beygja karlkynsnafnorðið grátur eins og hlátur. Menn segja þá til dæmis að stutt sé á milli hláturs og ?gráturs.“ Bréfritarinn „kannaði þetta mál og fann ískyggilega mörg dæmi meðal yngra fólks.“ Á tímarit.is eru 314 dæmi um hláturs og gráts, það elsta frá 1923, en 129 dæmi um hláturs og gráturs, það elsta frá 1927. Í Risamálheildinni eru 154 dæmi um hláturs og gráts, en 110 um hláturs og gráturs. Báðar myndir orðasambandsins eru sjaldgæfar fram um 1980 en síðan þá hafa báðar verið algengar.
En jafnframt er ljóst að eignarfallsmyndin gráturs er sjaldgæf nema í þessu sambandi. Ástæðan fyrir notkun hennar er augljós, eins og Helgi Seljan nefndi í Morgunblaðinu 2002: „Rétt mun eignarfallið gráts, en virðingarvert raunar að þeir sem tala um gráturs á móti hláturs eru þó ekki alveg lausir við rétta rímhugsun, en gjarnan mættu þeir hinir sömu nýta rímhugsunina rétt.“ Karl Emil Gunnarsson var á sömu nótum í Morgunblaðinu 2002: „Þarna er komið skólabókardæmi um áhrifsbreytingu. Eignarfallið, sem allajafna er gráts, verður gráturs fyrir áhrif frá hláturs. Mikill er máttur rímsins. Breytingin er þó ekki orðin almenn enn sem komið er og verður vonandi bundin við fáa enn um sinn.“ Sú von virðist ekki hafa ræst.
Það er ljóst að máltækið hljómar miklu betur ef það er haft milli hláturs og gráturs – orðasambandið byggist í raun á þessu rími. Þótt eignarfallið af grátur sé vissulega gráts svona eitt og sér er ekkert einsdæmi að óvenjuleg („röng“) beygingarmynd sé notuð í föstum orðasamböndum. Þetta má bera saman við sambandið komin á steypirinn þar sem viðurkennd þolfallsmynd er steypinn. Í því tilviki segir Málfarsbankinn: „Betur fer á að tala um að vera kominn á steypirinn en „vera kominn á steypinn“ þar sem fyrri rithátturinn styðst við gamla hefð.“ Sama gildir um milli hláturs og gráturs þótt hefðin þar sé kannski ekki jafnlöng. Svipað dæmi er naktri í neyðin kennir naktri konu að spinna þar sem venjuleg mynd er nakinni.