Horbjóður og hroðbjóður

Orðið horbjóður er býsna algengt í óformlegu máli og er að finna í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls þótt það hafi ekki komist inn í orðabækur. En það er auðskilið – á bloggi Kolbrúnar Baldursdóttur 2007 segir: „Orðið horbjóður er nú í notkun a.m.k. einhverra ungmenna og merkir viðbjóður. Hugsunin á bak við orðið held ég sé nokkuð skýr. Fyrri hlutinn „hor“ kemur líklega frá enska orðinu horrible og síðari hlutinn „bjóður“ er náttúrulega seinni hluti orðsins viðbjóður.“ En mér finnst líklegt að í huga flestra tengist fyrri hlutinn fremur nafnorðinu hor – sem mörgum býður einmitt við. Jón Gnarr sagði, um annað orð myndað á svipaðan hátt: „Það væri allt í lagi ef það væri töff, eins og til dæmis þegar hor og viðbjóður verður „horbjóður.“

Orð af þessu tagi komast lítið á prent og því er erfitt að segja um aldur þeirra út frá prentuðum heimildum. Á tímarit.is eru aðeins átta dæmi um orðið, það elsta frá 2006. Í Risamálheildinni eru aftur á móti rúmlega 1200 dæmi um orðið af samfélagsmiðlum, það elsta af Hugi.is árið 2000: „Á maður bara að hætta að halda með honum eingöngu vegna þess að hann breyttist í eyrnaætu og horbjóð?“ En tiltækir textar af samfélagsmiðlum ná ekki nema aftur til ársins 2000 þannig að orðið gæti vel verið eldra og í umræðum í hópnum Skemmtileg íslensk orð var nefnt að það væri a.m.k. 30 ára gamalt. A.m.k. er ljóst að á árunum 2003-2004 var það orðið mjög algengt í óformlegu máli. Samsetningarnar horbjóðslegur og horbjóðslega koma einnig fyrir.

Annað orð sem er hljóðfræðilega og merkingarlega líkt og væntanlega myndað á sama hátt er hroðbjóður. Í Fréttablaðinu 2014 segir: „Katrín Júlíusdóttir tók einnig upp nýyrðasmíð í gær þegar hún [...] sagði utanríkisráðherra eiga að sjá sóma sinn í að biðja þingheim afsökunar á þessum „hroðbjóði““. Haft var eftir Merði Árnasyni „að líklegast væri orðið samsett úr orðunum hroðalegt og viðbjóður“. En Katrín er tæpast höfundur þessa orðs. Elsta dæmi sem ég hef séð um það er á Hugi.is 2002: „jesús minn helmáttugur þetter sá allra mesti hroðbjóður sem ég hef séð.“ Níu dæmi eru um orðið á tímarit.is, það elsta frá 2006, en hátt í 800 dæmi í Risamálheildinni, langflest á samfélagsmiðlum þar sem það hefur verið algengt frá 2003-2004.

Orðhlutinn -bjóður í samsetningum getur merkt 'sem býður' – þannig var t.d. vörubjóður áður notað í merkingunni '(farand)sölumaður'. Á Bland.is 2010 segir: „Á íslensku mætti nota orðið horbjóður um þann sem býður upp á hor […].“ Það er hreint ekkert fráleitt að skilja orðið á þennan hátt, og hroðbjóður gæti þá verið 'sem býður upp á hroða' en hroði merkir m.a. 'e-ð lélegt, úrgangur' og 'slím í lungnapípum' – merkingarlega ekki fjarri hor sem skýrt er 'slím í nefi'. Þótt orðin horbjóður og hroðbjóður séu án efa sambræðingar að uppruna má því vel líta á þau sem myndlíkingar – það sem er horbjóður eða hroðbjóður býður upp á eitthvað óviðfelldið eða ógeðslegt, vekur hjá fólki hugrenningatengsl við hor eða hroða.

Ég þykist vita að mörgum finnist horbjóður og hroðbjóður óviðkunnanleg orð – en það á einmitt vel við, þau eiga að vekja slíkar tilfinningar eins og áður segir. Þetta eru engin „orðskrípi“, heldur er þarna um að ræða orð sem koma upp meðal almennra málnotenda og eru góð dæmi um virka orðmyndun sem sýnir tilfinningu fólks fyrir málinu og hæfni til að leika sér með það. Það er ekkert óeðlilegt við það að hver kynslóð komi sér upp nýjum orðum af þessu tagi, en ef fólk hefur áhyggjur af því að horbjóður og hroðbjóður útrými hinu gamalgróna orði viðbjóður er það ástæðulaust – í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru hátt í fjórtán sinnum fleiri dæmi um viðbjóður en um hin orðin samanlagt. Látum þau bara í friði.