Karllægni íslenskra íbúaheita

Í umræðum um kynhlutlaust mál er því oft haldið fram að málfræðilegt kyn sé allt annað en kyn mannfólksins og komi því lítið við. Það er vitanlega rétt að vissu marki – það kemur kyni fólks ekkert við að stóll skuli vera karlkyns, borð hvorugkyns en borðplata kvenkyns – eða að heili skuli vera karlkyns, hjarta hvorugkyns en lifur kvenkyns. En orð sem hafa það hlutverk að vísa til fólks hafa óneitanlega oft tengsl við kyn fólksins – ekki öll, og ekki alltaf, en miklu meira og oftar en látið er í veðri vaka og við áttum okkur á. Margt bendir til að kyn orðanna hafi áhrif á það hvernig við notum þau, og áhrif á hugmyndir okkar um fólkið sem þau eru höfð um. Í gær skrifaði ég um íbúaheiti sem enda á -maður og hvernig þau virðast mun síður notuð í vísun til kvenna en til karla.

En þetta kemur ekki bara fram í íbúaheitum sem enda á -maður þótt það sé mest áberandi í þeim. Sama tilhneiging virðist koma fram hjá öðrum íbúaheitum – sem eru öll karlkyns. Ég hef skoðað í Risamálheildinni orð sem eru mynduð á mismunandi hátt – Dani, Svíi, Finni, Englendingur, Breti, Þjóðverji, Frakki. Öll þessi orð eru margfalt oftar notuð um karla en konur en það er ekki að marka vegna þess að karlar eru yfirgnæfandi í textunum. Það sem kemur hins vegar fram er að í öllum tilvikum er nokkuð af dæmum um lýsingarorð sem vísar til þjóðernis og orðið konadanska konan X o.s.frv. – en nær engin dæmi um slík lýsingarorð með orðinu karl, maður eða karlmaður. Einkum er þó fjöldi dæma um lausan greini og lýsingarorð sem vísar til þjóðernis – hin danska X o.s.frv.

Vissulega eru einnig mörg sambærileg dæmi sem vísa til karla – hinn danski X o.s.frv. En þótt slík dæmi séu álíka mörg og þau sem vísa til kvenna er hlutfall dæma þar sem vísað er til kvenna á þennan hátt í stað þess að nota íbúaheitið margfalt hærra en þegar um vísun til karla er að ræða. Hér má taka dæmi af þekktu dönsku íþróttafólki, karli og konu. 110 dæmi eru um Daninn Mikkel Hansen en fimm um hinn danski Mikkel Hansen. Aftur á móti eru aðeins þrjú dæmi um Daninn Pernille Harder en 44 um hin danska Pernille Harder.  Þetta verður ekki túlkað á annan hátt en þann að margir málnotendur hafi tilhneigingu til að forðast – líklega oftast ómeðvitað – að láta karlkyns þjóðaheiti standa með kvennafni. Vitanlega er þetta ekki algilt, en tilhneigingin er augljós.

Þetta þýðir í raun að þótt íslensk íbúaheiti – sem eru öll karlkyns eins og áður segir – séu að nafninu til kynhlutlaus, í þeim skilningi að þau eigi að vera hægt að nota um fólk óháð kyni, hafa þau í raun mikla karlaslagsíðu í huga málnotenda. Það þýðir jafnframt að engin raunverulega kynhlutlaus íbúaheiti eru til í málinu. Hvað það þýðir fyrir (ómeðvitaðar) hugmyndir okkar um stöðu kynjanna, og fyrir tungumálið, er svo annað mál. Þýðir það að sjálfgefin hugmynd okkar um íbúa tiltekins lands sé karlmaður? Þýðir það að við þurfum að leggja áherslu á að búa til raunverulega kynhlutlaus íbúaheiti? Það er ekki mitt að svara þessum spurningum og tilgangurinn með þeim er ekki að hvetja til einhverra aðgerða, heldur að vekja okkur til umhugsunar um það hvernig málið virkar í raun.