Eru konur kannski menn?

Á tuttugustu öld tóku konur upp á því að krefjast þess að vera menn. Sú krafa varð fyrst hávær með Rauðsokkunum upp úr 1970, þótt elsta dæmi sem ég hafi fundið á prenti um það að kona segist vera maður sé úr Atómstöðinni sem kom út 1948. Þar segir Ugla: „Ég vil kaupa mér kápu fyrir þá penínga sem ég hef unnið mér inn af því ég er maður.“ En langþekktasta dæmið um þetta er úr sjónvarpsumræðum forsetaframbjóðenda vorið 1980. Þar var Vigdís Finnbogadóttir spurð: „Má þá ekki orða það sem svo að það eigi að kjósa þig af því að þú ert kona?“ En Vigdís svaraði að bragði: „Nei. Það á ekki að kjósa mig af því að ég er kona. Það á að kjósa mig af því að ég er maður. Og innan orðsins maður er bæði karl og kona.“ Enn er oft til þessa vitnað.

Löngu síðar, 2015, sagði Vigdís svo í viðtali: „Konur eru menn, við erum kvenmenn. Ég var spurð að því í kosningabaráttunni hvort það ætti að kjósa mig af því ég er kona og ég sagði nei, það á að kjósa mig af því ég er maður! Sem þótti ansi gott svar. Og nú er búið að eyðileggja það svar!“ En var eitthvað að eyðileggja? Notkun orðsins á prenti bendir ekki til að konur hafi verið menn í málvitund þeirra sjálfra. Á tímarit.is eru alls 750 dæmi um sambandið ég er maður og nær öll um karla – í einstöku tilvikum dugir samhengið ekki til að átta sig á kyni mælandans. Í Risamálheildinni (2019) sem hefur að geyma 1,64 milljarða orða, aðal­lega frá síðustu 20 árum, eru 89 dæmi um ég er maður – engin um konur nema nokkrar vísanir í áðurnefnd orð Vigdísar.

Á tímarit.is má finna 176 dæmi um samböndin konur eru menn og konur eru líka menn, flest frá því á Rauðsokkatímanum upp úr 1975. Eldri dæmi má þó finna – „Og konur eru líka menn“ er haft eftir Laufeyju Valdimarsdóttur, kvenréttindakonu og dóttur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Það er þó athyglisvert að sambandið konur eru líka menn er stundum sett sem viðbót, innan sviga eða afmarkað með þankastrikum, á eftir orðinu menn, t.d. „Jafnvel hér, norður undir heimskautsbaug, hitnar mönnum – konur eru líka menn – í hamsi.“ Þetta sýnir vitaskuld að textahöfundum hefur ekki þótt sjálfgefið að menn yrði skilið sem almenn vísun til karla og kvenna og bendir til þess að sú notkun hafi verið í ósamræmi við almenna máltilfinningu.

Kjörorðið „konur eru líka menn“ var mjög eðlilegt á sínum tíma – konur vildu minna á að þessir menn sem sífellt væri verið að tala um væru ekki bara karlar, og konur ættu að njóta jafnréttis við karla á öllum sviðum. Eftir á að hyggja er spurningin hins vegar hvort það hafi verið nauðsynlegt eða skynsamlegt að láta þessa kröfu ná til tungumálsins á þann hátt sem gert var – hvort það hafi e.t.v. leitt til þess að konur gengju inn í karlaheim tungumálsins á forsendum karlanna. Hefur einhvern tíma á seinni öldum verið eðlilegt að nota maður/menn um tiltekna konu eða konur? Eins og hér hefur verið rakið benda ritaðar heimildir a.m.k. til þess að konur noti sjaldan nota orðið maður um sjálfar sig og lýsi sér sjaldan með orðum sem enda á -maður.

Vissulega erum við öll af tegundinni maður. En það táknar ekki sjálfkrafa að öllum konum eða kynsegin fólki finnist eðlilegt að segja ég er maður, eða konur eru menn. Ástæðan er sú að orðið maður tengist karlmönnum miklu nánari böndum en konum og hefur gert það alveg síðan í fornu máli eins og ég rakti í fyrirlestri sem ég flutti í fyrrahaust, og því er oft erfitt fyrir konur og kynsegin fólk að samsama sig þessu orði. Vitanlega er sjálfsagt að konur sem vilja segja ég er maður geri það – þær hafa góð rök fyrir því. En að ætlast til þess að annað fólk geri eins – ætlast til þess að öllum þyki þetta eðlilegt orðalag – er tilhneiging til málstýringar, ekki síður en að setja fiskari í stað fiskimaður eða öll velkomin í stað allir velkomnir.