Kynjaðir textar
Undanfarið hef ég skrifað hér allnokkra pistla um kynjamál, ekki síst merkingu og notkun orðsins -maður og samsetninga af því. Ég veit að sumum þykir nóg um og í vikunni var sett hér inn nafnlaus færsla þar sem spurt var hvort þetta væri orðinn einhver femínistahópur – eins og það væri eitthvað hræðilegt. Tilgangurinn með þessum pistlum er samt ekki sá að reka áróður fyrir málbreytingum í átt til kynhlutleysis þótt ég geri mér grein fyrir því að svo kunni að líta út. En mér finnst kynjamál og karllægni tungumálsins vera efni sem mikilvægt er að ræða og tilgangurinn er að skjóta fræðilegum stoðum undir þá umræðu með því að skoða raunverulega málnotkun. Ef ykkur finnst nóg komið af svo góðu sleppið þið því auðvitað bara að lesa þetta.
Umræðan um merkingu einstakra orða hefur að mestu leyti byggst á orðabókarskilgreiningum annars vegar og hins vegar á máltilfinningu þeirra sem tala eða skrifa hverju sinni. En orðabókarskilgreiningar eru í eðli sínu frekar íhaldssamar og normatífar og lýsa auk þess fyrst og fremst grunnmerkingu orða en ekki ýmsum aukamerkingum sem ráða má af notkun orðanna (og koma stundum fram í notkunardæmum). Máltilfinning okkar er einmitt það – máltilfinning okkar, og annað fólk hefur oft aðra máltilfinningu. Þar að auki endurspeglast sú máltilfinning sem við höldum að við höfum – eða höldum fram að við höfum – ekki alltaf í málnotkun okkar. Staðreyndin er sú að við gerum okkur oft litla grein fyrir því hvernig við tölum sjálf.
Við getum lagt áherslu á það ef við viljum að konur séu menn, að fólk af öllum kynjum geti sagt ég er maður um sig sjálft, að Bandaríkjamaður merki 'mannvera frá Bandaríkjunum, óháð kyni', að karlmaður og kvenmaður séu tvö hliðstæð og jafngild orð, og að Olsen er Dani geti vísað til fólks af hvaða kyni sem er. Þetta er allt hárrétt, út af fyrir sig – út frá orðabókarskilgreiningum og þeirri máltilfinningu sem margt fólk telur sig hafa. En það segir ekki alla söguna, og að endurtaka þetta aftur og aftur skilar okkur ekki langt í umræðunni. Þess vegna er mikilvægt að leita annarra sjónarhorna – skoða hvað málnotkun fólks segir um þessi atriði, og hvort það rímar við orðabókarskilgreiningarnar og máltilfinningu fólks.
Þá kemur í ljós að engin framangreindra fullyrðinga lýsir því hvernig þessi orð og orðasambönd eru notuð í raunverulegum textum af ýmsu tagi – þar kemur verulegur kynjamunur fram í öllum þessum atriðum eins og ég hef gert grein fyrir í þeim pistlum sem ég hef skrifað undanfarið. Þótt vissulega sé hægt að deila um túlkun fjölmargra dæma er þessi munur miklu meiri en svo að hann geti verið tilviljun. Svo má vitanlega velta því fyrir sér – og deila um – hvort eigi að túlka þennan mun þannig að konur (og kynsegin fólk) standi höllum fæti gagnvart körlum í tungumálinu, og hvort það endurspegli þá – eða jafnvel stuðli að – veikari stöðu þeirra í samfélaginu. En það er annarra að svara því – ég er bara að sýna hvernig þetta er í textum.