Breyting á eignarfalli kvenkyns -un-orða

Í dag var nefnt hér að algengt væri orðið að forsetningin vegna stýrði öðru falli en eignarfalli, einkum á kvenkynsorðum sem enda á -un – sagt væri vegna hlýnun, vegna lokun, vegna skoðun o.s.frv. Þetta er svo sem ekki nýtt. Helgi Skúli Kjartansson vakti fyrstur máls á þessu í grein sem heitir „Eignarfallsflótti“ í Íslensku máli 1979. Hann fjallar þar um ýmis dæmi þess að önnur föll en hefðbundið er séu notuð í stað eignarfalls og tekur m.a. dæmi eins og „Vegna […] röskun áætlunar“. Í slíkum dæmum getur tvennt komið til: Annars vegar breytt fallstjórn, t.d. að vegna fari að stjórna þolfalli í stað eignarfalls, en hins vegar breyting á einstökum fallmyndum ákveðinna beygingarflokka, t.d. að kvenkynsorð sem enda á -un missi eignarfallsendinguna.

Annað dæmi sem nefnt var í sömu andrá var eignarfall kvenkynsorða sem enda á -ingvegna byggingu hússins. Um slík dæmi skrifaði ég einu sinni pistil og taldi að þar væri ekki um breytta fallstjórn að ræða, heldur hefðu slík orð tilhneigingu til að fá -u-endingu í eignarfalli fyrir áhrif frá þolfalli og þágufalli. Vissulega má ímynda sér sömu skýringu á dæmum eins og vegna hlýnun – þar yrði eignarfallið endingarlaust fyrir áhrif frá öðrum föllum orðsins. En á þessu tvennu er þó sá grundvallarmunur að endingarlaust eignarfall á sér engin fordæmi í kvenkynsorðum, nema í litlum hópi orða sem enda á -i (gleði, reiði o.fl.). Eignarfallsendingin -u er aftur á móti ending hins geysistóra hóps veikra kvenkynsorða og því mjög algeng.

En ég fór að skoða dæmi um vegna X-un í Risamálheildinni, þ.e. dæmi þar sem kvenkyns -un-orð eru endingarlaus í eignarfalli á eftir vegna, og fann margfalt meira en ég átti von á – hátt í þúsund dæmi. Fyrir utan fjöldann kom það mér líka á óvart að meginhluti dæmanna var úr tiltölulega formlegum textum – einkum fréttum prentmiðla og vefmiðla, en einnig alþingisræðum, dómum o.fl. Það er samt rétt að leggja áherslu á að þótt dæmin séu þetta mörg er hlutfallið ekki hátt – dæmi um X-unar, þ.e. þar sem vegna tekur með sér -un-orð með endingunni -ar, eru rúm 90 þúsund. En þúsund dæmi eru samt of mörg til að hægt sé að afskrifa þau sem villur af einhverju tagi, heldur hljóta þau að vitna um að einhver breyting sé í gangi.

En er þetta breyting á fallstjórn eða beygingarmynd? Til samanburðar má nefna að 23 dæmi eru um endingarlausu myndina grun í sambandinu vegna grun um. Það eru ekki fleiri dæmi en svo að vel gæti verið um innsláttarvillur að ræða, í ljósi þess að dæmin um vegna gruns um eru tæp 20 þúsund. Þetta gæti bent til þess að breytingin væri einkum bundin við kvenkynsorð sem enda á -un og því um breytingu á beygingarmynd að ræða. Þessi breyting virðist nefnilega ekki bundin við forsetninguna vegna – það er líka töluvert af dæmum um endingarlaus -un-orð á eftir forsetningunni til sem stjórnar eignarfalli eins og vegna. Þetta eru dæmi eins og „Aukin upptaka af koltvísýringi í hafinu hefur leitt til súrnun þess“ í Fréttablaðinu 2021.

Lausleg athugun bendir því til þess að dæmi eins og vegna hlýnun séu frekar til marks um að kvenkyns -un-orð séu farin að missa eignarfallsendinguna en að fallstjórn forsetningarinnar vegna sé að breytast. Þetta þarf þó að kanna miklu nánar, og vel má vera að einhver merki séu líka um breytta fallstjórn. Ég hef yfirleitt engar áhyggjur af breytingum á endingum einstakra orða – það skiptir engu máli fyrir málkerfið hvort við segjum hurðir eða hurðar, tugs eða tugar, vegna byggingu eða vegna byggingar, o.s.frv. En öðru máli gegnir um það þegar ending fellur alveg brott án þess að nokkuð komi í staðinn. Það veikir eignarfallið sem er sjaldgæfast fallanna og stendur veikt fyrir. Þess vegna finnst mér ástæða til að reyna að sporna við þessari breytingu.