Ábyrgð á enskunotkun í ferðaþjónustu
Hér hafa undanfarið verið miklar umræður um enskunotkun í íslenskri ferðaþjónustu. Í því sambandi er rétt að rifja upp að á undanförnum árum hafa komið út þrjár merkar skýrslur um tungumál í ferðaþjónustunni, unnar í samvinnu Háskólans á Hólum og Árnastofnunar – höfundar eru Anna Vilborg Einarsdóttir, Ágústa Þorbergsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir. Skýrslurnar heita Ráðandi tungumál í íslenskri ferðaþjónustu, Staða málstefnu í stoðkerfi ferðaþjónustunnar. Skiptir hún máli? og Nöfn fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu.
Óhætt er að segja að skýrslurnar dragi upp dökka mynd af stöðu íslensku innan ferðaþjónustunnar og viðhorfum til íslensku innan greinarinnar. Hér fylgja nokkrar tilvitnanir í skýrslurnar:
- „Niðurstöður gefa vísbendingar um að ferðaþjónustuaðilar telji að enska verði að vera ráðandi tungumál í ferðaþjónustu, sérstaklega í markaðssetningu og færri en fleiri sjá ástæðu til þess að nota íslensku meðfram ensku. Ferðaþjónustuaðilum virðist ekki auðvelt að halda íslenskri tungu á lofti eða nota hana í sinni þjónustu en brýnt er að þeir átti sig á vandanum og velti fyrir sér hvernig best er að taka á málinu.“ (Ráðandi tungumál, bls. 2)
- „Margir (36%) sögðu að starfsfólk hefði áhuga á að læra íslensku og sæktu slík námskeið ef þau væru í boðið. Starfsfólk sem veldi það gerði það yfirleitt á eigin kostnað. Svörin sýna að meirihluti starfsfólks hefur áhuga á að læra íslensku. Þeir sem sögðu starfsfólk ekki hafa áhuga á því sögðu skýringuna oftast þá að fólk stoppaði svo stutt við.“ (Ráðandi tungumál, bls. 19)
- „Þannig svöruðu 42% þátttakenda því til að íslenskunám væri ekki í boði í nágrenninu eða að ekkert framboð væri á hagnýtu íslenskunámi sem kæmi að notum í vinnunni. Eða að spurningin ætti ekki við þar sem enginn erlendur starfsmaður væri hjá fyrirtækinu. 49% svarenda sögðu að starfsfólkið hefði ekki áhuga á íslenskunámi, að námið væri á óheppilegum tíma, eða að þau tilgreindu eitthvað annað, s.s. að engir erlendir starfsmenn væru í fyrirtækinu o.fl. Fæstir eða 9% svarenda sögðu starfsfólkið stoppa of stutt við á vinnustaðnum til að það tæki því fyrir það að læra íslensku, námið væri of dýrt fyrir starfsfólkið eða að vinnustaðurinn hefði ekki áhuga á að styrkja íslenskunám starfsfólksins. Þá kom fram að vetrarnámskeið gögnuðust sumarstarfsfólki lítið.“ (Ráðandi tungumál, bls. 28)
- „Við höfum ekki staðið okkur vel í að auðvelda fólki að læra málið. Þrýstingur á að læra það er lítill og sjálf grípum við allt of fljótt til enskunnar. Þetta kemur vel fram í viðtölunum. Enginn sagðist hafa hvatt erlent starfsfólk til að læra íslensku. Þeir sem vilja læra íslensku hafa sjálfir haft frumkvæðið að því og flestir greiddu fyrir það sjálfir.“ (Ráðandi tungumál, bls. 47-48)
- „Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingu um að andvaraleysi gagnvart stöðu íslensku sé ríkjandi hvort sem það er hjá opinberum aðilum eða stoðkerfi ferðaþjónustunnar.“ (Staða íslensku, bls. 23)
- „Við má bæta að kominn er tími til spyrja erlenda ferðamenn um áhuga þeirra á að sjá og heyra íslensku á ferð um landið til þess að fá þær niðurstöður á hreint og vinna út frá þeim. Í viðræðum okkar við aðila, bæði innan og utan ferðaþjónustunnar, hafa komið fram meiningar um að hagstæðast væri að leyfa enskunni að taka við af íslenskunni.“ (Staða íslensku, bls. 24)
- „Niðurstaðan er sú að þrátt fyrir að stjórnvöld hafi lagt fram þá kröfu til sveitarfélaganna að þau móti sína eigin málstefnu hafa þau yfirleitt ekki gert það og skipuleggjendur ferðaþjónustu og umsjónaraðilar hennar hafa ekki brugðist við ruðningsáhrifum ensku á íslensku í auglýsingum. Dæmi um þetta er stefnurammi Samtaka ferðaþjónustunnar til ársins 2030 undir fororðunum: Leiðandi í sjálfbærri þróun, þar sem ekkert er fjallað um tungumál […] Er ekki kominn tími til að spyrja um sjálfbærniáform ferðamálayfirvalda gagnvart íslenskri tungu?“ (Staða íslensku, bls. 24)
- „Verði íslenska ekki gjaldgeng í ferðaþjónustu á Íslandi og enska verður tekin fram yfir hana mun hljómur og ásýnd landsins breytast. Þar með glatast mikilvæg sérstaða og um leið verðmæti.“ (Nöfn fyrirtækja, bls. 31)
Vitanlega berum við öll ábyrgð á íslenskunni og eins og hér hefur oft verið lögð áhersla á er mikilvægt að Íslendingar breyti framkomu sinni og viðhorfum gagnvart erlendu starfsfólki – sýni því þolinmæði og ýti undir íslenskunotkun þess. En ábyrgð ferðamálayfirvalda og þeirra sem reka fyrirtæki í ferðaþjónustu er sérstaklega mikil og því miður verður ekki séð að þeim sé þessi ábyrgð nógu ljós.