Uppáhelling(ur)
Í gær var hér spurt hvaða orð væri haft um það þegar korgur væri nýttur til kaffilögunar. Þetta var stundum gert áður fyrr til að reyna að nýta kaffið betur, t.d. með því að hella upp á tóman korg eða með því að setja korg út í vatn áður en það var soðið og hella upp á með smávegis nýju kaffi í trektinni. Í Lesbók Morgunblaðsins 1986 segir: „Sumir helltu jafnvel upp á sama kaffið tvisvar. Það var kallað uppáhellingur og þótti ekki sérstaklega fínt.“ Bæði kvenkynsorðið uppáhelling og karlkynsorðið uppáhellingur eru skýrð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 sem 'kaffe som laves på allerede brugte bønner, påfyldning'. Í Íslenskri orðabók er aðeins karlkynsmyndin gefin og skýrð 'kaffi sem hellt hefur verið á kaffikorg'.
Uppáhelling(ur) þótti oftast hálfgert hallæriskaffi eins og fram kemur í Hamri 1957: „Svo mikla lukku gjörði þetta, að allt seldist upp, meira að segja helltum við á korginn fyrir rest og því er ekki að leyna, að sú uppáhelling var hálfgert glundur.“ Í Heimilisblaðinu 1956 segir: „En það var eilífur uppáhellingur, sem ég varð að krydda með sírópi til þess að finna nokkurt bragð!“ Oft var gerður munur á uppáhellingi og alvöru kaffi eins og dæmi í Skólablaðinu 1915 sýnir: „Sumir hafa einhvern grun um það, að börnum sé kaffi óholt, og gefa þeim því ekki almennilegt kaffi, en „uppáhelling“ halda þeir að óhætt sé að gefa þeim.“ Í Vísi 1967 segir: „Hún bauð blaðamanninum að ganga í bæinn og þiggja kaffisopa, eða í það minnsta uppáhelling.“
En í seinni tíð hefur orðið uppáhelling(ur) töluvert aðra merkingu. Báðar myndirnar eru gefnar í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrðar 'kaffi sem hellt er upp á (kaffið sett í filter sem heitt vatn rennur í gegn)'. Þessi merking kemur skýrt fram í Fréttablaðinu 2010: „Algengasta aðferðin við að hella upp á kaffi á íslenskum heimilum hefur löngum verið svokallaður uppáhellingur. Þá er kaffið sett í kaffifilter í trekt og sjóðandi vatni hellt í gegnum það jafnt og þétt.“ Þarna er ekki lengur verið að tala um sérstakt hallæriskaffi þótt því sé ekki að neita að kaffi lagað á þennan hátt þyki kannski ekki eins fínt og kaffi sem lagað er með ýmsum tilfæringum og vélum og ber alls konar erlend heiti sem óþekkt voru á Íslandi til skamms tíma.
Merkingarbreyting orðsins virðist verða kringum 1970. Í í Þjóðviljanum 1971 er auglýst „sjálfvirk uppáhelling“. Í Morgunblaðinu 1973 segir: „Eða þegar kaffipakkinn dugar varla í tvær uppáhellingar?“ Í þessum dæmum merkir orðið reyndar ekki afurðina, kaffið, heldur verknaðinn, þ.e. 'það að laga kaffi', en augljóslega er ekki verið að tala um að nýta korg til kaffilögunar. Skömmu síðar fara þó að sjást dæmi þar sem orðið á við afurðina, kaffið sjálft, t.d. í Dagblaðinu 1977: „Það lætur nærri, að venjulegur uppáhellingur kosti eitthvað um hundrað krónur fyrir utan vatn og hita.“ Í Tímanum 1979 segir: „Ég óska langlífis og góðrar sjónar og bið að heilsa […] konu hans og þakka mikinn uppáhelling og ágætt viðmót.“
Sagnirnar umhella og trekkja voru einnig notaðar í svipaðri merkingu, um mismunandi aðferðir til að nýta kaffið sem best, sem ekki var eingöngu gert í sparnaðarskyni heldur til að fá betra kaffi. Í Dagblaðinu 1981 segir: „Hin rétta aðferð væri sú að hella upp á venjulegan hátt en umhella síðan ¾ hlutum kaffisins.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1986 segir: „Þegar búið var að hella upp á könnuna var – og er ennþá – algengt að hella fyrstu bununni í bollann og síðan aftur á pokann. Þetta var kallað að „umhella“ eða að „trekkja“ kaffið.“ Undir sögninni trekkja í Íslenskri orðabók er gefin merkingin 'hella upp á kaffi (einnig um það sérstaklega að hella nýlöguðu kaffi aftur í gegnum síupokann til að ná sem mestum styrk úr því)'.
Þótt uppáhelling(ur) hafi áður fyrr verið notað um lélegt kaffi gegnir öðru máli um sambandið hella upp á. Það hefur verið notað síðan á 19. öld, langoftast í sambandinu hella upp á könnuna – elsta dæmi sem ég finn um hella upp á kaffi er frá 1944. Þetta samband virðist aldrei hafa tengst notkun korgs við kaffilögun sérstaklega, og sama gildir um sambandið uppáhelt kaffi en elsta dæmi um það er í Nýjum vikutíðindum 1966: „Kaffið er ávallt ný-uppáhellt úr litlum cory-glerkönnum.“ En uppáhelling(ur) er skemmtilegt dæmi um orð sem hefur breytt um merkingu. Forsenda þeirrar breytingar var að þörfin fyrir orðið í eldri merkingu var úr sögunni með bættum efnahag fólks. Á svipuðum tíma kynntust Íslendingar fjölbreyttari aðferðum til kaffilögunar og þá var orðið á lausu og hægt að grípa það til að nota um kaffi lagað á hefðbundinn hátt.