Að urlast

Í Málvöndunarþættinum var í dag spurst fyrir um sögnina urlast sem kom fyrir í frétt á Vísi í dag – „Við urðum vitni að því þegar fuglarnir urluðust í fyrra“ segir þar. Orðið er ekki að finna í hefðbundnum orðabókum og fyrirspyrjandi sagðist hvorki hafa heyrt það né séð fyrr en hafði fundið það á Nýyrðavef Árnastofnunar þar sem það er skýrt 'Að sturlast, eða truflast, t.d. úr hlátri eða reiði'. Sú sem sendi orðið á Nýyrðavefinn bætir við: „Of langt síðan til að hægt sé að muna hvar ég heyrði þetta fyrst, a.m.k. 2 áratugir“ – en orðið var sent inn árið 2022. Í umræðu í Málvöndunarþættinum var sagt að orðið ætti uppruna sinn á tíunda áratugnum og hefði þá verið notað sem slangur tengt sögninni sturlast. En sennilega er orðið talsvert eldra en það.

Árið 2000 skrifaði Gísli Jónsson í þættinum „Íslenskt mál“ í Mogunblaðinu: „Umsjónarmaður er að safna fróðleik um sögnina að urlast og orðasambandið að ver(ð)a urlaður. Þetta heyrist um þessar mundir á Akureyri, einkum meðal yngra fólks og er haft í merkingunni að geggjast, ver(ð)a geggjaður. Ég hef komist að því að þetta er ekki mjög ungt, nema það hafi fallið niður og verið lífgað við seinna.“ Gísli vitnar í systur úr Aðaldal sem segjast kannast mjög vel við þetta sem „slanguryrði unglinga“ frá því 40-50 árum fyrr og hafi „á táningsaldri notað það í merkingunni (létt)geggjaðar; það hafi alltaf verið neikvætt en tiltölulega meinlaust“. Þetta þýðir að orðið hefur verið komið í notkun upp úr miðri síðustu öld, fyrir 60-70 árum.

Nokkru síðar birti Gísli bréf sem honum hafði borist þar sem bréfritari sagðist þekkja sögnina úr máli sonar síns sem notaði hana í merkingunni 'að verða uppnæmur, æstur eða brjálast'. Sonurinn sagðist hafa lært sögnina af vini sínum úr Garðabæ sem er fæddur 1964, og vinurinn „taldi að hann hefði sjálfur búið það til og giskaði á að hann hefði breytt sögninni að sturlast í urlast“. En samkvæmt því sem að framan segir er orðið nokkru eldra, þótt ekki sé útilokað (en ólíklegt) að það hafi orðið til á tveimur stöðum. Elstu dæmi á prenti um sögnina urlast eru frá 1995 og elstu dæmi um lýsingarorðið urlaður frá 1996. Þetta eru nokkur dæmi, öll úr stjörnuspám í Tímanum sem eru mjög óformlegar og væntanlega sami höfundur að þeim öllum.

Í Risamálheildinni eru hátt í 400 dæmi um sögnina urlast og rúm 30 um lýsingarorðið urlaður – nær öll af samfélagsmiðlum. Það er því ljóst að þessi orð eru talsvert notuð, einkum sögnin, en að mestu bundin við óformlegt mál. Dæmin dreifast á tvo síðustu áratugi og fyrstu árin er oft verið að spyrja hvaða orð þetta séu og hvað þau merki, eða hafna þeim með öllu – „Þetta heitir að sturlast, ekki urlast“ segir t.d. á Bland.is 2006, og „Nei, að urlast eða vera urlaður er ekki til“ segir á Bland.is 2009. En slíkar athugasemdir sjást ekki á seinustu árum sem bendir til að þessi orð séu orðin nokkuð þekkt og viðurkennd – í óformlegu máli. Hvort fólk vill nota þau í formlegu málsniði er auðvitað smekksatriði, en líklegt er að svo verði með tímanum.