Forréttindaglepja

Í gær var hér spurt hvort hópverjar kynnu eitthvert annað orð yfir það sem hefur verið kallað forréttindablinda og merkir 'Það þegar fólk tekur ekki eftir því að það nýtur efnahagslegra eða félagslegra forréttinda af einhverju tagi'. Orðið er a.m.k. rúmlega tíu ára gamalt en hvorki að finna í Íslenskri orðabókÍslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmi sem ég finn um það er á Bland.is árið 2012: „En forréttindablinda er lúmsk og margskonar.“ Orðið hefur breiðst hratt út og í Risamálheildinni eru rúm 400 dæmi um það. Fleiri samsetningar af þessu tagi, þar sem fyrri hlutinn lýsir því hvað glepur fólki sýn eða á hvað fólk er blint (í óeiginlegri merkingu) eru til, sumar nýlegar svo sem kynjablinda en aðrar eldri svo sem flokksblinda og siðblinda.

Þótt þessi orð séu í sjálfu sér gagnsæ og orðhlutinn -blinda lipur í samsetningum hefur verið bent á að það geti hugsanlega verið særandi fyrir blint og sjónskert fólk þegar blinda er notuð á þennan hátt, í neikvæðum orðum sem vísa til fáfræði, hugsunarleysis, skeytingarleysis o.þ.h. Í staðinn væri e.t.v. hægt að nota orðið glepja, sbr. glepja sýn, og tala um forréttindaglepju, kynjaglepju, flokksglepju o.s.frv. Nafnorðið glepja er til samkvæmt Íslenskri orðabók og skýrt 'glypjulegt, gisið prjón' en sagt staðbundið. Þetta orð er svo sjaldgæft að óhætt ætti að vera að taka það traustataki og gefa því nýja merkingu, sem fellur algerlega að merkingu sagnarinnar glepja. Þetta er allavega möguleiki fyrir þau sem fella sig ekki við forréttindablinda og slík orð.