Illur – illari – illastur

Þótt flest lýsingarorð stigbreytist reglulega með endingunum -(a)ri í miðstigi og -(a)stur í efsta stigi hafa fáein algeng orð óreglulega stigbreytingu þar sem miðstig og efsta stig fá annan stofn en frumstigið. Þau helstu eru góður sem fær stofninn bet- í efri stigunum, betri og bestur, og illur, slæmur og vondur sem öll fá stofninn ver- í efri stigunum, verri og verstur. Það ber samt við að þessi orð fái reglulega stigbreytingu í samsetningum. Það eru fleiri dæmi um geðvondari en geðverri í Risamálheildinni og dæmi eru um geðillari, viðskotaillri, geðgóðari, vongóðari o.fl. Orðið úrillur fær eingöngu myndirnar úrillari og úrillastur enda er ekki augljóst að um samsetningu sé að ræða – ólíklegt að málnotendur þekki orðið úr eitt og sér (í þessari merkingu).

Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1984 vitnaði Gísli Jónsson í dæmi um miðstigið viðskotaillri og sagði: „Ég legg til að við stigbreytum illur, verri, verstur, svo sem verið hefur. Ef nauðsynlegt þykir að stigbreyta illur reglulega, væri illari hóti nær en illri.“ Þarna virðist hann sem sé ekki hafna reglulegri stigbreytingu alfarið, en þegar góður, illur, slæmur og vondur standa ein og sér er stigbreytingin nær alltaf óregluleg. Myndum eins og góðari / góðastur, vondari / vondastur og slæmari / slæmastur bregður þó fyrir á samfélagsmiðlum (og væntanlega í töluðu máli) – og einnig illari / illastur, en þær myndir hafa þó nokkra sérstöðu. Dæmi um þær eru nefnilega ekki bundin við óformlegt málsnið heldur má finna fáein slík í fjölmiðlum.

Í DV 1986 segir: „Nautin verða sífellt erfiðari viðureignar, eru orðin bæði illari og útsmognari en áður.“ Í Vísi 2007 segir: „segist þó iðrast einskis en hún var á sínum tíma kölluð „illasta kona Þýskalands““. Í DV 2007 segir: „Ekki er vitað hvað hann átti sökótt við lögreglustjórann en hann hefur að öllum líkindum orðið enn illari þegar hann vaknaði.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 2008 segir: „Á þessum tíma í sögu þungarokksins streittust menn við að vera hraðari, illari og þyngri en næsta sveit.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Hann var mjög umdeildur á fyrri hluta 20. aldarinnar og var m.a nefndur illasti maður Bretlandseyja.“ Í DV 2012 segir: „Hitastigið í Los Angeles er nógu ljúft fyrir sjávarböð meðan Kári gnauðar sem illastur hér heimafyrir.“

Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar þrjár merkingar lýsingarorðsins illur: (1) 'slæmur, vondur', (2) 'erfiður', (3) 'reiður'. Mér finnst þó vanta þarna eina enn: (4) 'illvígur' en það orð er skýrt 'erfiður viðureignar, hættulegur'. Í öllum dæmunum hér að framan væri hægt að setja illvígari / illvígastur í stað illari / illastur, en ekki nóg með það: Það er hæpið eða útlilokað að nota venjulega stigbreytingu á illur í þessum dæmum – það myndi breyta merkingu. A.m.k. væri alveg fráleitt að segja á þessum tíma í sögu þungarokksins streittust menn við að vera hraðari, verri og þyngri en næsta sveit. Það er því eðlilegt að gera ráð fyrir að illur stigbreytist bæði reglulega og óreglulega en reglulega stigbreytingin sé bundin við eina merkingu orðsins.