Það er hugarfarið sem er vandamál, ekki erlendu heitin

Það hefur verið talsverð umræða bæði á netinu og í fjölmiðlum um nafnbreytingu Rúmfatalagersins yfir í Jysk, og sýnist sitt hverjum. Mörgum þykir lítil eftirsjá í gamla nafninu og vissulega er rétt að það er nokkuð þunglamalegt þótt þar komi styttingin Rúmfó til bjargar – um hana eru rúm sex þúsund dæmi í Risamálheildinni en ekki nema rúm fjögur þúsund um fullt nafn verslunarinnar. Þar að auki má auðvitað deila um það hversu góð íslenska lager sé þótt það hafi vitanlega unnið sér hefð í málinu. En óneitanlega er tilbreyting að nýja heitið er danskt en ekki enskt, þótt þau rök eigenda fyrir nafnbreytingunni að gamla nafnið lýsi ekki lengur vöruvali verslunarinnar eigi auðvitað ekki síður við Jysk en Rúmfatalagerinn.

Auðvitað er það rétt sem nefnt hefur verið í umræðunni að þarna er um að ræða fjölþjóðlega keðju og í sjálfu sér ekki óeðlilegt að hún hafi sama nafn alls staðar þar sem hún starfar, eins og t.d. IKEA og Elko og Bauhaus og Costco – og það er svo sem ekki eins og Bónus og Nettó séu sérlega íslenskuleg nöfn. Og erlend nöfn verslana og veitingahúsa eru engin ný bóla – í upphafi 20. aldar voru í Reykjavík verslanir eins og Thomsens Magasín, H.P. Duus, Edinborg og J.J. Lambertsen, veitingahús eins og Café Tivoli og Café Uppsalir o.s.frv. En það sem er sérstakt í þessu tilviki er að verið er að taka úr notkun íslenskt heiti sem hefur unnið sér hefð og setja erlent heiti í staðinn – rétt eins og þegar drykkurinn „Toppur“ varð „Bonaqua“ nýlega.

Einstök erlend heiti, hvort sem það er á verslunum, veitingahúsum eða öðru, skipta engu máli og það er engin ástæða til að ætla að þau opni leið fyrir straum erlendra orða inn í málið. Það eru ekki heitin í sjálfu sér sem ástæða er til að hafa áhyggjur af fyrir hönd íslenskunnar, heldur hugsunin – eða kannski fremur hugsunarleysið – á bak við þau. Af hverju finnst eigendum og stjórnendum þessara fyrirtækja eðlilegt og nauðsynlegt að kalla þau erlendum nöfnum? Skýringin er oft sögð sú að meginhluti viðskiptavina séu ferðafólk, en eru einhverjar líkur á að ferðafólk borði frekar á veitingastað sem heitir ensku nafni en íslensku? Það er ekki heldur eins og allt ferðafólk sem hingað kemur eigi ensku að móðurmáli, og sumt skilur alls ekki ensku.

Þessi heiti bera þess vegna fyrst og fremst vott um það (meðvitaða eða ómeðvitaða) viðhorf þeirra sem reka verslanir og veitingastaði að íslenskan henti ekki í heiti þessara fyrirtækja – sé ekki nógu smart eða kúl. Þegar við sjáum tæpast verslanir og veitingastaði með íslenskum nöfnum má búast við að þetta viðhorf síist líka inn í almenning. Það getur svo aftur haft þau áhrif að við verðum ónæmari fyrir óþarfri ensku á öðrum sviðum – hún er orðin svo áberandi og svo víða í umhverfi okkar að við tökum ekki eftir því þótt hún teygi sig smátt og smátt inn á fleiri og fleiri svið, og á endanum verður ekki aftur snúið. Við þurfum að vinna gegn þessu – ekki erlendum nöfnum út af fyrir sig, heldur því hugarfari sem veldur því að þau þykja sjálfsögð.