DEleríum BÚbónis eða DeLEríum búBÓnis?

Í morgun var sagt frá könnun á framburði Íslendinga á snakkinu Bugles og það minnti mig á annað svolítið hliðstætt sem ég var að velta fyrir mér um daginn. Nú ætlar Borgarleikhúsið að taka söngleikinn „Deleríum búbónis“ eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni til sýninga á ný. Ég hef stundum undanfarið heyrt þetta borið fram með áherslu á öðru atkvæði – DeLEríum búBÓnis. Leikritið er litlu yngra en ég, var frumsýnt 1959, og þótt ég sæi það ekki á þeim tíma heyrði ég það mjög oft nefnt þegar lögin úr því voru flutt í útvarpinu. Ég er viss um að í þá daga bar ég þetta alltaf fram eins og hvert annað íslenskt orð, með áherslu á fyrsta atkvæði – DEleríum BÚbónis. Ég skal ekki fullyrða að sá framburður hafi verið notaður í útvarpinu, en held það þó.

Á þessum tíma, fyrir daga sjónvarps svo að ekki sé talað um netið, komu erlend orð aðallega til okkar á prenti. Þá var eðlilegt að fólk bæri þau fram samkvæmt íslenskum reglum og hefði t.d. áhersluna á fyrsta atkvæði – og áttaði sig jafnvel ekki á orðunum ef þau voru borin fram „rétt“. Ég man t.d. eftir því að nafn Haile Selassie sem var keisari Eþíópíu til 1974, og oft var nefndur í útvarpi þegar ég var strákur, var þar borið fram Hæle SeLASSí, þ.e. með áherslu á öðru atkvæði eftirnafnsins – sem ég held að sé réttur framburður. En ég skynjaði þetta alltaf sem Hælese Lassí, þ.e. skynjaði áherslulausa fyrsta atkvæðið í eftirnafninu sem lokaatkvæði fornafnsins, og fannst þarna vera undarlegt ósamræmi við það hvernig nafnið var á prenti.

Þetta er sem sé eitt af því sem hefur breyst, bæði með breyttri tungumálakennslu þar sem meiri áhersla er lögð á talað mál en áður, en fyrst og fremst auðvitað með meiri beinum kynnum okkar af erlendum málum í gegnum sjónvarp og net, og stóraukin ferðalög til útlanda og fjölgun útlendinga á Íslandi. Nú eru minni líkur en áður á því að við beitum íslenskum framburðarreglum, þar á meðal áherslu á fyrsta atkvæði, ósjálfrátt á erlend orð – eða orð sem líta út fyrir að vera erlend. Þess vegna er skiljanlegt að yngra fólk segi DeLEríum búBÓnis en við sem eldri erum höldum okkur við DEleríum BÚbónis. Í þessu er ekkert réttara en annað – þetta er bara áhugavert dæmi um það hvernig kynni af erlendum málum hafa áhrif á framburð.