Að hafna fólki um vernd

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í dag segir: „Ekki er búið að finna lausn á því hvað verður um þau sem er hafnað um alþjóðlega vernd en fara ekki af landi brott.“ Í sömu frétt er einnig talað um „fólk sem hefur fengið synjun um alþjóðlega vernd“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er hafna skýrð 'vísa (e-u) frá, neita (e-u)' en synja er skýrð 'hafna (e-u) gefa neikvætt svar við (e-u)'. Sögin neita er svo m.a. skýrð 'synja (e-m e-s)'. Þessar þrjár sagnir hafa því mjög svipaða merkingu en meðal notkunardæma um synja er synja <henni> um <gistingu> og meðal notkunardæma um neita er neita <henni> um <lán>. Sambærilegt dæmi er ekki að finna undir hafna. Þýðir það að ekki sé hægt að tala um að hafna einhverjum um eitthvað?

Vissulega hefur það ekki verið algengt en um það eru þó fjölmörg dæmi, það elsta sem ég hef fundið í Íslendingi 1935: „Ítölum verði hafnað um öll lán.“ Í Alþýðublaðinu 1949 segir: „eins og kunnugt er var bænum hafnað um fjárfestingarleyfi.“ Í Tímanum 1970 segir: „honum hafi verið hafnað um inngöngu í Málarameistarafélagið.“ Í Morgunblaðinu 1980 segir: „Okkur var hafnað um leyfið í fyrra.“ Í Alþýðublaðinu 1987 segir: „þannig að mér finnst ekkert óeðlilegt að þeim sé hafnað um lán.“ Í Morgunblaðinu 1999 segir: „tryggingafélag bílstjórans hafnaði honum um bætur.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Því urðum við að hafna þeim um skólavist.“ Í blaðinu 2006 segir: „henni væri enn sem áður frjálst að hafna þeim um giftingu sem hún vill.“

Dæmi frá þessari öld í Risamálheildinni um hafna einhverjum um eitthvað skipta hundruðum, meirihlutinn frá síðustu 10 árum. Öfugt við flestar nýjungar er meginhluti dæmanna úr formlegu máli, þ. á m. dómum og lögum. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2013 segir t.d: „Viðskiptavinum sparisjóðsins hafi enn fremur beinlínis verið hafnað um að fá „gjaldeyrislán“ greidd út með þeim hætti.“ Í Lögum um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar frá 2020 segir: „Lánardrottinn skuldara getur krafist þess við héraðsdóm að heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar verði felld niður ef lánardrottinn telur atvik vera með þeim hætti að skuldara yrði hafnað um framlengingu heimildarinnar.“

En hvað á þá að segja um dæmið sem nefnt var í upphafi, „hafnað um alþjóðlega vernd“? Eins og nefnt er hér að framan hafa sagnirnar hafna, synja og neita mjög svipaða merkingu og eru stundum notaðar í sömu samböndum – hægt er að segja t.d. hafna þessari beiðni, synja þessari beiðni og neita þessari beiðni. Það er því engin furða að málnotendur hafi tilhneigingu til að tala um að hafna einhverjum um eitthvað, rétt eins og synja einhverjum um eitthvað og neita einhverjum um eitthvað. Í ljósi þess að a.m.k. 90 ára gömul dæmi eru um þetta orðalag og það er orðið töluvert algengt, ekki síst í formlegu málsniði, sé ég enga ástæðu til að amast við því. Þetta er eðlileg áhrifsbreyting sem getur vel samræmst merkingu og annarri notkun sagnarinnar.