Að ópa
Í dag var spurt hér hvort fólk hefði séð ópa notað sem sögn, en í frétt í DV í dag segir: „Ópaði hann svo yfir mannskapinn að eigandi bílsins skyldi færa bílinn.“ DV tekur þetta upp af vef Hrímfaxa en þar stendur reyndar núna „Hrópaði hann svo yfir mannskapinn að eigandi bílsins skyldi færa bílinn“ – trúlegt er að því hafi verið breytt eftir athugasemdir. Ég kannaðist ekki við sögnina ópa og hélt fyrst að þetta væri villa, en eftir að ég fór að skoða málið nánar skipti ég um skoðun. Það kom nefnilega í ljós að þótt þessi sögn hafi ekki komist í orðabækur á hún sér langa sögu og nokkra tugi dæma má finna um hana á tímarit.is, allt frá 19. öld til síðustu ára. Í Risamálheildinni er á fjórða tug dæma um sögnina, flest af samfélagsmiðlum.
Elsta dæmi sem ég finn um ópa er í Skírni 1889: „Lengi og hátt ópað heyr.“ Þetta kemur fyrir tvisvar í sömu grein þannig að það er greinilega ekki prentvilla. Annað dæmi er í Dagskrá 1898: „Simpson og jeg gengum sitt við hvora hlið hans, ópuðum og orguðum í eyru honum til þess að halda honum vakandi.“ Í Íslendingi 1925 segir (í kvæði eftir Jochum M. Eggertsson): „En útburðir við heljar-hurðu / hrópa, biðja, væla, ópa.“ Í Fálkanum 1931 segir: „Drottinn minn! heyrði hann ópað og um leið datt maðurinn kylliflatur á gólfið og lá þar.“ Í Viljanum 1939 segir: „Þeir koma langar leiðir að og ópa, dansa og syngja í marga daga.“ Í Munin 1977 segir (í ljóði eftir Tryggva Hákonarson): „Haf hljótt / hlusta / heyr þú hrópa / væla og ópa.“
Aðalnotkun ópa eftir miðja 20. öld er þó í krossgátum – sögnin er stutt og sjaldgæf og hentar því einkar vel til þeirra nota. Ég fann vel á annan tug dæma um þessa notkun sagnarinnar í ýmsum blöðum, einkum á sjötta áratugnum en einnig síðar – nýjasta dæmið er frá 2022. Sögnin er ýmist höfð sem lausn á hrópa, kalla, orga eða veina. En sögninni bregður einnig fyrir í annarri notkun. Í myndatexta í DV 2001 segir: „Á litlu myndinni sést hlauparinn Jon Drummond ópa af angist.“ Í DV 2004 segir: „persónur ópa „Heilagur Kiljan“ í gríð og erg.“ Í Morgunblaðinu 2011 segir: „þegar almenningur ópar og veinar í örvæntingu.“ Á mbl.is 2020 segir: „Lögregla skaut og særði mann sem veifaði hnífi og ópaði „Guð er máttugastur“.“
Dæmi eru um að gerðar hafi verið athugasemdir við sögnina ópa í málfarsskrifum. Í grein eftir nemendur í hagnýtri fjölmiðlun um málfar í útvarpsstöðvum í Málfregnum 1998 segir: „Eftirfarandi setning heyrðist á einni stöðinni: Hún ópaði upp yfir sig, þ.e. sögnin(!) „ópa“. Líklegt má telja að útvarpsmaðurinn haft ætlað að segja hún æpti upp yfir sig eða hún hrópaði upp yfir sig en ruglað saman sögnunum að æpa og hrópa svo að úr varð þessi meinlega en kostulega málvilla.“ Í pistli Eiðs Guðnasonar frá 2014 er vakin athygli á setningunni „Ein hérna var að stíga niður fæti, þegar önnur sem starfar með mér sá köngulóna og ópaði“ í frétt á Vísi – þar stendur reyndar núna æpti í staðinn. Eiður segir: „Það var og. Konan ópaði, hún æpti ekki.“
Að leiða sögn af nafnorði með því að bæta nafnháttarendingunni -a við nafnorðsstofninn er vitaskuld góð og gild orðmyndunaraðferð, og ekki undarlegt þótt málnotendum finnist eðlilegt að leiða ópa af óp, með hliðsjón af t.d. hrópa – hróp. Í þessu tilviki vill samt svo til að fyrir er í málinu sögn leidd af óp á örlítið annan hátt, þ.e. með i-hljóðvarpi – sögnin æpa. Tilvist hennar veldur því að mörgum finnst ópa hljóma óeðlilega, og vissulega er hún mjög sjaldgæf þótt dæmum virðist fara fjölgandi í óformlegu málsniði a.m.k. En í ljósi þess að ópa er rétt mynduð, á sér langa og óslitna sögu í málinu, og hefur lengi verið notuð athugasemdalaust í krossgátum tel ég eðlilegt að viðurkenna hana sem rétt mál, þótt ég mæli ekki sérstaklega með henni.