Öskrum við meira eftir hrun?

Í gær bar hér á góma nokkrar sagnir sem hafa öskur- að fyrri lið – öskursyngja, öskurhlæja, öskurgráta og öskurgrenja eru þær helstu en mun sjaldgæfari eru öskurhnerra, öskuræla, öskurgubba, öskurmjálma o.fl. Eins og ég hef áður skrifað hér um eru samsettar sagnir ekki ýkja margar í íslensku en á síðustu árum hefur það þó færst mjög í vöxt að nota samsettar sagnir í stað orðasambands með sögn og nafnorði eða sögn og forsetningu eða atviksorði. Þetta eru sagnir eins og haldleggja í stað leggja hald áfrelsissvipta í stað svipta frelsinafnbirta í stað birta nafnökuleyfissvipta í stað svipta ökuleyfi, fjárafla í stað afla fjár, brottvísa í stað vísa brott, o.s.frv. Nýlega hafa svo áðurnefndar öskur-sagnir bæst í þennan hóp.

Elsta dæmi sem ég finn um slíka samsetningu er í ljóði eftir Nínu Björk Árnadóttur í Leikhúsmálum 1997: „hún heyrir hafið öskra og hlæja, heyrir það öskurhlæja.“  Á Hugi.is segir 2003: „heheh deatha er að öskursyngja.“ Örfá dæmi eru á Bland.is. Dæmi frá 2009: „Í versta falli losna þau við helluna við það að öskurgrenja.“ Frá 2010: „þá öskurgrenjaði ég inni á baði því mamma lenti ekki að skutla mér í ræktina.“ Frá 2011: „Ég var um daginn í kolaportinu og þá var kona búin að týna syni sínum og var öskurgrátandi yfir því.“ Frá 2013: „Ég mindi öskurgrenja og æla.“ Á Twitter eru tvö dæmi frá 2013: „Heil röð af unglingsstúlkum með teina öskurgrét fyrir aftan mig“ og „og öskurgrét yfir UP myndinni með Kára í dag“.

Þetta eru einu dæmin um öskur-sagnir sem ég finn fyrir 2014, en þá er eins og einhver stífla bresti og áðurnefndar fjórar sagnir verða skyndilega algengar á samfélagsmiðlum en fara skömmu síðar einnig að sjást á vefmiðlum og prentmiðlum. Í Risamálheildinni er vel á annað þúsund dæma um þessar sagnir – hátt á þriðja hundrað um öskurhlæja og öskurgráta, á fjórða hundrað um öskurgrenja og á sjöunda hundrað um öskursyngja – og örfá um aðrar öskur-sagnir. Meginhluti dæmanna er vissulega af samfélagsmiðlum, en þó er slæðingur af dæmum úr vefmiðlum eins og Vísi og DV og prentmiðlum eins og Fréttablaðinu, Fréttatímanum, Morgunblaðinu og Stundinni. Slíkum dæmum hefur fjölgað verulega allra síðustu ár.

Í umræðum í gær var því haldið fram að öskur-sagnir hefðu komið í staðinn fyrir sagnir eins og skellihlæja og hágráta / hágrenja sem heyrðust varla lengur. Það er þó ekki rétt – þær sagnir eru enn margfalt algengari en öskur-sagnirnar, líka á samfélagsmiðlum. En svo er spurning hvort merkingin er sú sama. Vegna þess að öskur-sagnirnar eru ekki í mínum orðaforða átta ég mig ekki alveg á því en dreg þó í efa að svo sé – mér finnst merkingin í öskur-sögnunum yfirleitt ofsafengnari en í skellihlæja og hágráta / hágrenja. Nær væri að bera hágráta / hágrenja saman við orga en hún er líka algeng. Ég man ekki eftir neinni sögn sem gæti samsvarað öskursyngja   – ég myndi væntanlega segja syngja hástöfum eða eitthvað slíkt, en það merkir samt annað.

Hvernig stendur á því að þessar fjórar sagnir (og raunar fleiri þótt sjaldgæfar séu) koma upp og breiðast út á svipuðum – og mjög stuttum – tíma? Ég átta mig ekki á því – ég finn t.d. enga beina enska samsvörun þótt nefnt hafi verið að öskurgrenja svipi til ugly cry á ensku. Einnig var nefnt í umræðunni að í sænsku væru til sagnirnar skrikgråta, skrikskratta og skriksjunga sem samsvara íslensku sögnunum en mér finnst einhvern veginn ólíklegt að sænska hafi haft svona mikil og skyndileg áhrif – nema þau stafi frá einhverri bíómynd eða sjónvarpsþáttum sem ég þekki ekki. En svo má líka spyrja hvort andlegt ástand þjóðarinnar hafi orðið óstöðugra og ofsafengnara eftir hrun sem kalli á öskur-sagnir eða hvetji til tilþrifameiri tjáningar.