Yltu eða veltu – þarna er efinn

Í sjónvarpsþættinum „Kappsmál“ í gærkvöldi áttu þátttakendur að beygja sambandið velta soltnum gelti og setja setninguna í fleirtölu, hafa sögnina í þriðju persónu í viðtengingarhætti þátíðar, lýsingarorðið í efsta stigi og nafnorðið með greini. Gefið var rétt fyrir svarið yltu soltnustu göltunum þótt stjórnandinn væri greinilega í vafa um myndina yltu og segði að það hefði líka verið hægt að segja veltu soltnustu göltunum. Spurningin væri hvort um áhrifssögn eða áhrifslausa sögn væri að ræða og örugglega þætti einhverjum rétt að gera greinarmun þar á en – „það fer algerlega eftir því hvað þú ert að gera við þessa gelti“ sagði hann.

Það er alveg rétt að í íslensku eru tvær sagnir sem hafa nafnháttinn velta. Önnur er sterk, hefur þátíðina valt og merkir 'færast úr stað með snúningi, rúlla'. Hún er áhrifslaus, þ.e. á eftir henni fer ekkert andlag (nafnliður) – við segjum bíllinn valt en ekki *ég valt bílnum. Hin sögnin er veik, hefur þátíðina velti og merkir 'koma snúningi á (e-ð), láta (e-ð) rúlla'. Hún er áhrifssögn, tekur með sér andlag – ég velti bílnum. Myndin yltu er viðtengingarháttur þátíðar í fleirtölu af fyrrnefndu sögninni – bílarnir yltu ef þeir færu of hratt í beygjuna. Samsvarandi mynd af síðarnefndu sögninni er veltu þau veltu bílnum ef þau færu of hratt í beygjuna.

Þess vegna er ekki rétt að orða það svo að svarið fari eftir því hvað verið sé að gera við geltina. Ef um áhrifslausu sögnina er að ræða er nefnilega ekkert pláss fyrir geltina í setningunni, ekki frekar en bílinn í dæminu *ég valt bílnum. Auðvitað má halda því fram – eins og þarna var í raun gert – að yltu sé samt sem áður rétt, vegna þess að það sé ómótmælanlega þriðja persóna fleirtölu í viðtengingarhætti af velta og ekki hafi verið tekið fram að um veiku sögnina væri að ræða. En þá verður líka að líta svo á að verið sé að beygja stök orð en ekki orð í samhengi, sem væri andstætt upplegginu og því sem venja er í þættinum.

Vitanlega er bæði keppendum og stjórnanda vorkunn. Þau orðasambönd sem ætlast er til að keppendur beygi í þessum þáttum eru fæst þess eðlis að þau komi nokkurn tíma fyrir í venjulegu máli, hvað þá þegar búið er að setja þau í sjaldgæfustu og snúnustu beygingarmyndir sem málkerfið býður upp á. Þetta getur verið skemmtileg gestaþraut en segir lítið um almenna málkunnáttu keppenda. Það er líka eðlilegt að stjórnendur lendi í bobba þegar upp koma myndir sem hljóma rétt en ekki hafði verið reiknað með, en það er samt óheppilegt þegar látið er að því liggja að munur áhrifssagna og áhrifslausra skipti engu máli.