Ógeðslega gagnlegt orð

Undanfarna daga hafa verið settar hér inn tvær færslur um orðið ógeðslega sem áhersluorð, í dæmum eins og ógeðslega vel, ógeðslega fallegt o.s.frv. Þótt þetta hafi að forminu til verið fyrirspurnir um þessa notkun orðsins fór ekki á milli mála að fyrirspyrjendum féll hún ekki í geð. En þetta er ekki nýtt. Í greininni „Málfar unglinga“ í Samvinnunni 1971 segir Árni Böðvarsson: „Eitt af einkennum þessa sérstæða unglingamálfars eru málbrögð sem nefna mætti umhvörf, það er orð notuð í umhverfri merkingu, öfugri merkingu við hina venjulegu. Gildir þetta bæði um last og lof. Til að mynda talar þetta fólk um að eitthvað sé ógeðslega, sóðalega, viðbjóðslega, ferlega, skuggalega, ofsalega, ofboðslega, æðislega, ískyggilega fallegt […].“

Þessi notkun orðsins ógeðslega hefur því tíðkast í meira en hálfa öld – e.t.v. mun lengur, því að óformlegt mál fór ekki að komast á prent svo að heitið gæti fyrr en upp úr 1980. Atviksorðið ógeðslega er leitt af lýsingarorðinu ógeðslegur sem er a.m.k. frá byrjun 18. aldar og skýrt 'sem vekur viðbjóð, óbeit' í Íslenskri nútímamálsorðabók en 'viðbjóðslegur, sem vekur andúð' í Íslenskri orðabók. Atviksorðið er aftur á móti ekki sérstök fletta í Íslenskri orðabók sem bendir til þess að litið hafi verið svo á að sérstök skýring væri óþörf – merking þess væri sú sama og lýsingarorðsins. Í Íslenskri nútímamálsorðabók fær ógeðslega hins vegar tvær skýringar – annars vegar 'sem vekur viðbjóð, óbeit' eins og lýsingarorðið og hins vegar 'til áherslu: mjög'.

Elstu dæmi um atviksorðið eru frá lokum 19. aldar og þar hefur það sömu merkingu og lýsingarorðið: „Hann sá að eins morðingja konu sinnar standa frammi fyrir sér, og glápa á sig með glottandi og ógeðslega aulalegu augnaráði“ segir í Þjóðviljanum 1898. Sú merking virðist einráð í prentuðum heimildum fram á áttunda áratuginn, en ýmis dæmi má þó finna sem skýra hvernig áherslumerkingin verður til. Þannig segir t.d. í Undir Helgahnúk eftir Halldór Laxness frá 1924: „Og ef hún sá hann einhversstaðar tilsýndar, þá tók hún ekki eftir öðru en því hvað hann var svolalegur og heingilmænulegur og hvað hann var ógeðslega feitur aftan á hálsinum.“ Þarna vísar ógeðslega til þess að fitan veki viðbjóð, en eins hægt að skilja þetta sem áhersluorð.

En á áttunda áratugnum fara að sjást dæmi þar sem ógeðslega er ótvírætt notað sem áhersluorð. Í Alþýðublaðinu 1973 er t.d. haft eftir Gerald Ford, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna (og síðar forseta): „Ég er ógeðslega heill andlega.“ Þarna getur vart leikið vafi á áherslumerkingu. Í Lesbók Morgunblaðsins 1976 segir: „Kannski líka Megas eða Magga Kjartans eða bara einhvern, sem er „ógeðslega töff og hefur meikað það“.“ Í Orðabók um slangur slettur bannorð og annað utangarðsmál frá 1982 er ógeðslega flettiorð með merkingunni 'mjög' og notkunardæminu ógeðslega fallegur. Þetta verður smátt og smátt aðalmerking orðsins á tímarit.is á níunda áratugnum, og nú má segja að orðið sé nær eingöngu notað til áherslu.

Á níunda áratugnum er líka farið að amast við þessari notkun í blöðum sem sýnir að hún er orðin útbreidd. Þannig segir Oddný Guðmundsdóttir í Tímanum 1981: „Ekki er þó um óviljaverk að ræða, þegar merkingu orða er gjörbreytt, eins og þegar talað er um viðbjóðslega gott veður og ógeðslega fallegt útsýni. Þetta er haft í staðinn fyrir fyndni.“ Í Morgunblaðinu 1989 segir Jón Aðalsteinn Jónsson: „Farið er að segja, að eitthvað sé ógeðslega gott eða fallegt. […] Nú vita allir, að lo. ógeðslegur og þá einnig ao. ógeðslega er haft um einhvern viðbjóð eða eftir orðanna hljóðan um það, sem mönnum geðjast ekki að, þykir ógeðfellt. Þannig er farið að nota ýmis orð alveg gagnstætt frummerkingu þeirra, og það getur ekki farið vel í málinu.“

En Gísli Jónsson var nokkuð afslappaður gagnvart þessari notkun og sagði: „Um áhersluorð er það að segja, að þau slitna fljótt, og menn eru sífellt að reyna að finna sér eitthvað nýtt til þess að vekja athygli. Verður slíkt ekki alltaf tekið alvarlega eða mælt á sömu stiku og annað málfar.“ Jón G. Friðjónsson segir í pistli í Málfarsbankanum: „Þess eru fjölmörg dæmi að merking lo. sem notuð eru til að kveða nánar á um e-ð (stærð, lögun, stig, umfang o.s.frv.) breytist í aldanna rás, oft þannig að bein merking bliknar eða verður ógagnsæ. […] Fjölmörg önnur orð í nútímamáli hafa nánast glatað eigin merkingu en hafa þess í stað fengið það sem kalla má hlutverksmerkingu eða ákvæðismerkingu.“ Sem dæmi nefnir Jón orðin æðislegur og æðislega.

En hann heldur áfram og segir: „Svo virðist sem hver kynslóð komi sér upp eigin orðaforða af þessum toga. Sem dæmi má nefna að orðin ógeðslegur og ógeðslega í herðandi merkingu virðast í tísku meðal ungs fólks [...].“ Eins og hér hefur komið fram hefur þessi notkun tíðkast hjá nokkrum kynslóðum, en virðist bundin við atviksorðið – lýsingarorðið er aldrei notað svona. Sá aðskilnaður sem hefur orðið milli atviksorðsins og lýsingarorðsins er gott dæmi um það hvernig orð geta slitnað frá uppruna sínum og lifað sjálfstæðu lífi, eins og ritmyndirnar ógis(s)la (431 dæmi í Risamálheild) og ógs(s)la (79 dæmi) sýna líka. Í nútímamáli er áherslumerkingin aðalmerking atviksorðsins ógeðslega – á hana er komin löng hefð og ekkert við hana að athuga.