Að skynda sér

Í dag var hér spurt um sögnina skynda sem fyrirspyrjandi hafði séð í auglýsingu: „Herferðin klárast í kvöld, þann 27/9, svo skyndaðu þér að versla núna.“ Spurt var hvort þetta væri léleg þýðing úr dönsku (skynde sig) eða hvort fordæmi væru fyrir þessari notkun. Skemmst er frá því að segja að þetta er rammíslensk sögn sem kemur fyrir þegar í fornu máli. Í Marteins sögu biskups segir t.d.: „En riddarar […] gerðu för sína og vildu skynda.“ Í Víga-Glúms sögu segir: „Það mælti faðir minn að eg skyldi skynda heim.“ Sögnin er flettiorð í Íslenskri orðabók og er þar skýrð 'flýta, skunda, hraða'. Hún er skyld skunda sem er skýrð 'fara (hratt), flýta sér' í Íslenskri orðabók og 'ganga hratt og ákveðið' í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Þótt skynda og skunda séu náskyldar, bæði orðsifjafræðilega og merkingarlega, er samt ekki hægt að líta á þær sem tvímyndir sama orðs vegna þess að þær haga sér dálítið mismunandi – beygingarlega, setningafræðilega og merkingarlega. Sögnin skunda beygist eins og stunda – hefur a í framsöguhætti nútíðar í eintölu, ég skunda o.s.frv., og -aði í þátíð, ég skundaði. Sögnin skynda beygist aftur á móti eins og synda – hefur i í framsöguhætti nútíðar í eintölu, ég skyndi o.s.frv., og -ti í þátíð, ég skynti. Þetta er þó ekki einhlítt – stundum fær sögnin sömu beygingu og skunda eins og í dæminu í upphafi. Í Nýrri sumargjöf 1860 segir líka: „Barúninn skyndaði út, til þess að taka á móti brúðgumanum.“ Í Vikunni 1956 segir: „Ég skyndaði að vagninum.“

Setningafræðilegi munurinn felst í því að skunda er alltaf áhrifslaus en skynda getur tekið andlag – oftast afturbeygt fornafn eða persónufornafn. Í Heimilisvininum 1910 segir: „Hann skynti sér heim og sagði tíðindin.“ Í Alþýðublaðinu 1923 segir: „Unglingurinn skynti ferðinni.“ Í Hermes 1968 segir: „1923 fór hann í því skyni til Lundúna en hætti námi þar og skyndaði sér til Parísar.“ Í Vísi 2021 segir: „aðrir sjá sæng sína upp reidda og skynda sér heim.“ Sögnin kemur einnig fyrir í sambandinu skynda ferð/för. Í Þjóðviljanum 1958 segir: „Fólkið skyndaði för sinni frameftir hinum löngu lestum vagna.“ Í Ópi bjöllunnar eftir Thor Vilhjálmsson frá 1970 segir: „Þetta frétti frúin Ísis; og fór að gruna margt og skyndaði ferð sinni þangað.“

Merkingarlegur munur sagnanna er sá að skunda vísar yfirleitt til göngu eins og skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók bendir til, a.m.k. í seinni tíð (eða þá 'drífa sig', sbr. „skundum á Þingvöll“) en skynda merkir einfaldlega 'flýta'. En síðarnefnda sögnin er nánast alveg horfin úr málinu – í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er tekið fram að hún sé „gamaldags“, og aðeins tvö dæmi frá þessari öld eru um hana í Risamálheildinni. Það er því engin furða að þeim sem rekast á hana nú detti í hug að um hráa dönsku sé að ræða. Þetta er hins vegar góð áminning um það að íslenska og danska eru vitaskuld náskyld tungumál, og þótt við rekumst á orð í íslensku sem líta út eins og danska geta þau vel verið hluti af sameiginlegri arfleifð málanna.