Að rýna til gagns – eða hvað?

Sögnin gagnrýna fær tvær skýringar í Íslenskri nútímamálsorðabók: 'segja kost og löst (á e-u)' og 'fella dóm tala um galla (e-s), finna að (e-u/e-m)'. Nafnorðið gagnrýni fær einnig tvær sambærilegar skýringar. Þótt báðar merkingarnar séu algengar er sú síðarnefnda oftast meira áberandi eins og marka má af tíðni sambanda eins og hörð eða óvægin gagnrýni, gagnrýna harkalega o.fl, og orðin hafa því á sér nokkuð neikvæðan blæ. Til að vega upp á móti þessari neikvæðni og styrkja fyrrnefndu merkinguna hefur í seinni tíð verið tilhneiging til að skilja orðin bókstaflega og segja að gagnrýna merki 'rýna til gagns' þar sem gagn er haft í merkingunni 'not, nytsemi', eins og í lýsingarorðinu gagnlegt, sambandinu gera gagn o.fl.

Elsta dæmi sem ég finn um sambandið rýna til gagns er í Þjóðviljanum 1984, í grein sem er gagnrýni á gagnrýni: „Þá er ekki rýnt til gagns, þá er skrattanum skemmt.“ Mjög oft er sambandið skýrt. Í Helgarpóstinum 1988 segir: „Hlutverk gagnrýnenda er að rýna til gagns, skýra og lýsa, ekki fleyta kerlingar á yfirborði hlutanna.“ Í DV 1990 segir: „Gagnrýni þýðir einfaldlega að rýna til gagns en ekki eitthvað neikvætt eins og íslendingar halda yfirleitt.“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „Gagnrýni er góð ef hún er rökstudd, sem sagt reynt að rýna til gagns, sjá málið frá öllum hliðum og tíunda bæði kosti þess og galla.“ Í Tímanum 1993 segir: „Hún þarf að vera fagleg og menn verða að skilja orðið gagnrýni, „rýni til gagns“.“

Hægt væri að nefna mun fleiri svipuð dæmi þar sem beinlínis er tekið fram að gagnrýni merki að 'rýna til gagns' og það virðist nú vera nokkuð útbreidd skoðun miðað við tíðni sambandsins rýna til gagns á þessari öld – um það eru um 150 dæmi á tímarit.is og hátt í 400 í Risamálheildinni. Ekki eru þó öll á því máli – „Ekkert bendir til að þegar hugsun einhvers er lýst sem gagnrýninni merki það að viðkomandi „rýni til gagns“, eins og vinsælt er að halda fram“ segir t.d. á Vísindavefnum. Enda er það ekki upphafleg merking orðanna. Þau koma fyrst fram í greininni „Gagnrýni“ í Eimreiðinni 1896 þar sem segir: „Eitt af því, sem einna tilfinnanlegastur skortur er á á Íslandi, er það sem á útlendu máli kallast »krítik«.“

Greinarhöfundur, dr. Valtýr Guðmundsson, heldur svo áfram: „Það kveður jafnvel svo rammt að, að við eigum einu sinni ekki neitt orð yfir hugmyndina í málinu. Að »krítísera« er eiginlega það, að láta sjer ekki nægja að skoða hlutina eins og þeir líta út á yfirborðinu, heldur leitast við að rýna í gegnum þá og gagnskoða, til þess að sjá hina innri eiginleika þeirra, bæði kosti og lesti. Það er með öðrum orðum að kafa í djúpið og sækja bæði gullið og sorann, greina það hvort frá öðru og breiða hvorttveggja út í dagsbirtunni, svo að allir, sem hafa ekki sjálfir tíma eða tækifæri til að vera að kafa, geti sjeð, hvað er gull og hvað er sori. Þetta virðist oss að mætti kalla á íslenzku gagnrýni og gagnrýninn þann mann, sem sýnt er um að gagnrýna hlutina.“

Það er því ljóst að gagn- í gagnrýna, gagnrýni og gagnrýninn átti upphaflega ekki að hafa sömu merkingu og í gagnlegt, til gagns o.fl., heldur þá merkingu sem það hefur í gagnsær – „rýna í gegnum þá og gagnskoða“ eða 'segja kost og löst (á e-u)' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Neikvæða merkingin, 'fella dóm tala um galla (e-s), finna að (e-u/e-m)', virðist þó fljótlega hafa orðið áberandi í merkingu orðsins. Fólki er vitanlega frjálst að skilja orð eins og því sýnist, og í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt að fólk tengi gagnrýna, gagnrýni og gagnrýninn við gagnlegt, til gagns o.þ.h. frekar en gagnsær. Ég er ekkert að amast við því – bara að benda á að það er ekki sú merking sem höfundur orðanna lagði í þau.