Akreinar, aðreinar, afreinar, fráreinar – og akgreinar

Í dag var hér spurt um orðið akgrein – hvort fráleitt væri að nota það í staðinn fyrir akrein. Þótt fyrrnefnda orðmyndin sé nokkuð algeng er hana ekki að finna í orðabókum en akrein er hin viðurkennda mynd og skýrð 'sá hluti akbrautar (tví- eða fleirskiptrar) þar sem er ekið í ákveðna átt' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið er samsett úr stofni sagnarinnar aka og nafnorðinu rein sem er skýrt 'skák, mjó ræma lands' í Íslenskri nútímamálsorðabók en er frekar sjaldgæft eitt og sér. Orðið er ekki ýkja gamalt í málinu – Halldór Halldórsson prófessor segir í DV 1995 að það hafi orðið til á sjötta áratug síðustu aldar og höfundur þess sé Einar B. Pálsson prófessor. „Þetta orð vann sér fljótt fastan sess í málinu, enda þjált í munni“ segir Halldór.

Árið 1958 kom orðið inn í umferðalög (nr. 26/1958) og varð því fljótt algengt. Elstu dæmi um það á tímarit.is eru frá sama ári – „Eitt nýyrðanna í umferðarlöggjöfinni nýju er orðið „akreinar“ segir t.d. í Morgunblaðinu. Orðið er skilgreint í orðskýringagrein laganna þar sem segir: „Í lögum þessum merkir: […] Akreinar: Samhliða reinar, sem skipta má akbraut í að endilöngu, hæfilega breiðar, hver um sig, fyrir eina röð ökutækja.“ Um svipað leyti var farið að mála akreinamerkingar á götur sem stuðlaði að aukinni notkun orðsins: „Umferðarnefnd Reykjavíkur hefur undanfarið látið mála akreinar á nokkur gatnamót, sem mikla umferð hafa, í þeim tilgangi að auka afköst gatnamótanna og gera umferð um þau greiðari“ segir í Morgunblaðinu 1958.

Notkun orðsins akrein jókst því mjög upp úr þessu, en fljótlega fór það einnig að sjást í myndinni akgrein sem kemur fyrst fyrir 1960. „Orðið akrein, var fundið upp fyrir áratugum, en í daglegu máli virðist afmyndunin akgrein vera fólki tamari“ segir í Þjóðviljanum 1988, og í Morgunblaðinu 2017 segir: „Orðið „akgrein“ er svo sem skiljanlegt – þeir sem nota það hugsa sér að vegurinn greinist í „greinar“.“ Öfugt við grein er orðið rein mjög sjaldgæft og þessi „afmyndun“ orðsins því eðlileg – þetta er alþýðuskýring þar sem leitað er að tengingu við önnur orð, eins og í reiðbrennandi, afbrigðisemi o.fl. Við það bætist að í eðlilegum framburði hljóma akrein og akgrein alveg eins – það þarf að slíta orðið í sundur til að munur komi fram.

Myndin akgrein hefur verið töluvert notuð næstum jafnlengi og akrein – um hana eru 439 dæmi á tímarit.is og 715 í Risamálheildinni, en dæmin um akrein eru samt u.þ.b. 20 sinnum fleiri. Það er athyglisvert að algengt er að báðar myndirnar komi fyrir í sama texta – „Til þess að möguleiki sé á að telja veg eða vegarspotta hraðbraut, er lágmarkið að akbrautin sé 3 akgreinar þ.e.a.s. ein akrein sín í hvora áttina og sú þriðja fyrir framúrakstur“ segir t.d. í Lesbók Morgunblaðsins 1974. Þótt vel megi segja að myndin akgrein hafi unnið sér hefð vegna aldurs og tíðni er rétt að hafa í huga að akrein er íðorð sem hefur skilgreinda merkingu í lögum og þess vegna getur verið óheppilegt að nota aðra mynd af því – þótt misskilningur sé ólíklegur.

En -rein kemur fyrir í fleiri skyldum orðum. Í umferðarlögum sem tóku gildi 1988 (nr. 50/1987) komu inn orðin aðrein sem er skýrt 'akrein sem liggur í sveig inn á akbraut' í Íslenskri nútímamálsorðabók og afrein sem er skýrt 'akrein sem beygir út af meginakbraut'. Þessi orð voru reyndar gagnrýnd fyrir að vera of lík enda mjög oft lítill sem enginn framburðarmunur á og af. Orðanefnd byggingarverkfræðinga hafði lagt til að nota orðið frárein (sem Halldór Halldórsson bjó til, eins og aðrein) í staðinn fyrir afrein, og það var gert með breytingu á umferðalögum 1993. Hugsanlegt er að þessi orð hafi styrkt myndina akrein í sessi á kostnað myndarinnar akgrein þar sem í þeim er ljóst að seinni hlutinn er -rein, ekki -grein.