Torvelda tilbrigði íslenskukennslu?

Þeim rökum er oft beitt gegn því að viðurkenna tilbrigði í máli að þau torveldi alla kennslu. Ég hef t.d. heyrt þetta notað gegn breytingum eins og að nota öll velkomin, þrjú slösuðust og annað slíkt sem kynhlutlausan valkost í stað allir velkomnir og þrír slösuðust, en einnig gegn breytingum á málstaðli í þá átt að valfrelsi verði um ýmis tilbrigði þar sem aðeins eitt hefur verið talið „rétt“ – mig eða mér langar, ég vil eða vill, o.s.frv. Því er haldið fram að ef fleiri en eitt tilbrigði verði viðurkennt og talið „rétt“ muni það leiða til þess að kennarar viti ekki hvað eigi að kenna, nemendur ruglist í ríminu og allt fari í graut – alls kyns óreiða skapist í málinu sem hafi ófyrirsjáanlegar afleiðingar. En þetta opinberar misskilning á markmiði kennslunnar.

Þetta byggist nefnilega á því að til standi að kenna nemendum allt um tungumálið og þess vegna þurfi að kenna þeim öll viðurkennd tilbrigði málsins – í framburði, beygingum, orðmyndun, orðaforða, setningagerð, merkingu o.s.frv. Ef þetta er markmiðið gefur augaleið að viðurkenning ýmissa tilbrigða gerir bæði kennara og nemendum erfitt fyrir og eykur að mun það sem þarf að kenna og læra. En auðvitað dettur engum þetta í hug. Það er margra ára ferli að læra tungumál sæmilega og við lærum aldrei öll tilbrigði móðurmáls okkar, hvað þá annarra tungumála. Þess vegna er ekkert að því – og nú þegar gert í sumum tilvikum – að velja tiltekin tilbrigði og miða kennsluna við þau án þess að öðrum sé þar með hafnað eða þau talin röng.

Í íslenskum framburði koma fyrir ýmis landshlutabundin tilbrigði, svo sem harðmæli, raddaður framburður, hv-framburður, vestfirskur einhljóðaframburður o.fl. Þessi tilbrigði eru fullkomlega viðurkennd sem „rétt mál“ en í hljóðfræðikennslu er þrátt fyrir það venja að miða við svokallaðan „sunnlenskan“ framburð af því að það er framburður meginhluta landsmanna. Nemendur eru oft fræddir meira eða minna um hin tilbrigðin, en kennslan miðast ekki við þau. Hið sama er hægt að gera með tilbrigði á öðrum sviðum málsins. Þar má fræða nemendur um öll tilbrigði ef þess er kostur, en annars miða kennsluna við það tilbrigði sem algengast er eða nota önnur málefnaleg viðmið, og fræða nemendur um önnur tilbrigði eftir efnum og ástæðum.

Það er ekkert að því – og ekkert flókið – að kenna íslenskum nemendum að sums staðar á landinu sé vanta borið fram [vantʰa] með rödduðu n og fráblásnu t en víðast sé n-ið óraddað og t-ið ófráblásið, [van̥ta]; að mig langar og ég hlakka til sé eðlilegt mál sumra en mér langar og mér hlakkar til eðlilegt mál annarra; að sumum finnist eðlilegt að nota karlkyn fornafna og lýsingarorða í vísun til óskilgreinds hóps og segja allir eru velkomnir en öðrum hugnist betur að nota hvorugkyn og segja öll eru velkomin – og kenna þeim að þessi afbrigði séu jafngild. Í kennslu íslensku sem annars máls er væntanlega meiri þörf á að velja ákveðið tilbrigði sem miðað er við, en aðalatriðið er að önnur tilbrigði séu nefnd og viðurkennd en ekki kölluð röng.