Að ná í úrslit

Í gær sá ég frétt á mbl.is með fyrirsögninni „Markmiðið að ná í úrslit“. Fréttin fjallaði um þátttöku karlaliðs Tindastóls í undankeppni Evrópubikars FIBA og í henni er lýst langri leið í úrslitakeppnina, gegnum tvöfalda riðlakeppni, og ég hugsaði með mér að þarna væri greinilega mikill metnaður á ferðum að ætla sér að komast í úrslitakeppnina. En ég fór að efast um þennan skilning þegar ég las fréttina til enda, því að í lokin er haft eftir fyrirliða Tindastóls: „Markmiðið er að sjálfsögðu að ná í einhver úrslit úr þessum tveimur leikjum og komast áfram.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið úrslit skýrt 'það hvernig e-u lyktar, niðurstaða, lyktir' en í íþróttum merkir það einnig oft 'lokakeppni, lokastig keppni þar sem skorið er úr um sigurvegara'.

Ég skildi „ná í úrslit“ í fyrirsögninni upphaflega þannig að átt væri við að 'komast í lokakeppnina', og þá merkingu hefur þetta orðalag vissulega oft – dæmi má taka úr tveimur fréttum Ríkisútvarpsins 2021: „Spænskt lið hefur aldrei áður náð í úrslit Meistaradeildarinnar“ og „Guðni kastar í undanúrslitum kringlukastsins í nótt og segir að á góðum degi muni hann ná í úrslit“. En sú merking getur augljóslega ekki átt við í lokasetningu áðurnefndrar fréttar, „ná í einhver úrslit úr þessum tveimur leikjum og komast áfram“. Þarna hlýtur úrslit að merkja 'góð úrslit', 'viðunandi úrslit' eða eitthvað slíkt. Sú merking orðsins er ekki einsdæmi en virðist ekki vera gömul – hefur þó tíðkast í a.m.k. 15 ár, og hefur verið að breiðast út á síðustu árum.

Á fótbolti.net 2008 segir: „Íslensk knattspyrna þarf fleiri góð úrslit og við eigum að ná í úrslit í svona leikjum eins og í dag.“ Á 433 2013 segir: „Að ná í úrslit hefur hikstað, við höfum fengið gagnrýni fyrir það.“ Á mbl.is 2014 segir: „Við erum í þeirri stöðu að við verðum að ná í úrslit á móti annað hvort FH eða Stjörnunni.“ Í DV 2017 segir: „Hann kom inn og byrjaði að ná í úrslit og fékk alla með sér.“ Á Vísi 2019 segir: „Við höfum ekki verið að ná í úrslit þrátt fyrir að vera betri aðilinn í leikjum fyrr í sumar.“ Á vef RÚV 2021 segir: „Við setjum alveg á okkur pressu sjálfar að standa okkur í þessum leik á morgun og ná í úrslit. Við vitum líka að ef við ætlum að ná úrslitum að þá verður hver einasti leikmaður í okkar liði að hitta á sinn besta dag.“

Hér hefur merking orðsins úrslit hnikast til en það er svo sem ekki einsdæmi að orð hafi jákvæða merkingu án ákvæðisorðs en neikvæða ef neikvæðu ákvæðisorði er bætt við. Hægt er að sleppa atviksorðinu úr mér líkar vel við þig og halda sömu merkingu, en ef því er sleppt úr mér líkar illa við þig snýst merkingin við. Svipað er þegar góð eða einhverju slíku er sleppt úr góð úrslit án þess að merking breytist. Líklega á þetta rætur í ensku þar sem talað er um get some results í sömu merkingu. Í ensku er þó annað orð, finals, notað yfir úrslitakeppni en í íslensku getur þessi nýja tvíræðni orðsins úrslit valdið misskilningi eins og sum dæmin hér að framan sýna – ég veit ekki enn hvort markmið Tindastóls er að komast í úrslitakeppni Evrópubikarkeppninnar.