Hæðst, stæðst, smæðst og fæðst

Í fyrradag voru hér nefndar myndir eins og hæðsti og hæðsta sem fyrirspyrjandi sagðist oft heyra og sjá, og spurði hvort þetta væri einhver málbreyting. Vissulega má þarna tala um málbreytingu en hún er fjarri því að vera ný. Björn Karel Þórólfsson segir í bókinni Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld: „Í efsta stigi af hár er frá því á 16. öld stundum skotið inn ð-i, af áhrifum nafnorðins hæð. […] Rithátturinn með ð-i er mjög algengur á 17. og 18. öld […].“ Fleiri hliðstæð dæmi má nefna – rithátturinn stæðstur fyrir stærstur kemur fyrir um 1700 og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 eru myndirnar hæstur, stærstur, smæstur og fæstur hljóðritaðar bæði með og án ð en ð-myndirnar sagðar „pop.“, þ.e. tilheyra hversdags(tal)máli.

Áður en stafsetning var samræmd og almenn stafsetningarkennsla hófst skrifaði fólk meira og minna eftir framburði og myndir með ð sjást því oft í eldri ritum eins og áður segir. En á 20. öld þegar farið var að kenna stafsetningarreglur sem miðuðust við stofn orða var ð-ið bannfært eins og Gísli Jónsson útskýrði í Morgunblaðinu 1986: „Efsta stig lýsingarorða er myndað af stofninum og stofn lýsingarorða kemur fram í kvenkyni. Kvenkynið af hár er , og þar af kemur með i-hljóðvarpi hæstur (ekkert r af því að það er ekki í kvenkyninu, og því síður ð). Kvenkynið af stór er líka stór, af því að hér er r-ið stofnlægt, og því verður efsta stig (einnig með i-hljóðvarpi) stærstur. Hér á r-ið heima, samanber kvenkynið, en að sjálfsögðu ekkert ð.“

Í greininni „Nokkrar athuganir á rithætti þjóðsagnahandrita í safni Jóns Árnasonar“ sem Árni Böðvarsson gaf út í Studia Islandica 1960 segir: „Alþekkt er að skólanemendur nú á dögum riti hæðstur fyrir ,,hæstur“ í ýmsum fallmyndum orðsins, og er það í samræmi við almennan framburð. […] Sami ritháttur er og algengur í orðinu „stærstur“, sem þá er ritað stæðstur eftir framburði.“ Það er því að sjá að bæði hæðstur og stæðstur hafi verið venjulegur framburður upp úr miðri síðustu öld – og tíðkast að einhverju leyti enn þótt líklega sé hann á undanhaldi. Þannig segir Eva S. Ólafsdóttir í Morgunblaðinu 2016: „Jafnframt heyrast enn villur sem ég man eftir frá því að ég var barn, þ.e. […] *hæðstur (hæstur) og *stæðstur (stærstur).“

En þrátt fyrir meira en hundrað ára stafsetningarkennslu og prófarkalestur hafa myndir með ð alla tíð laumast inn í ritað mál eins og Árni Böðvarsson nefnir. Á tímarit.is er þannig á fjórða þúsund dæma um hæðst- og um 400 um stæðst- en hins vegar ekki nema tæplega 80 um smæðst- og innan við 20 um fæðst-. Í Risamálheildinni sem aðallega hefur að geyma texta frá þessari öld er á fjórða þúsund dæma um hæðst- og hátt á þriðja þúsund um stæðst- en aðeins fimm um smæðst- og engin um fæðst-. Næstum öll dæmin um ð-myndirnar, um 95% þeirra, eru af samfélagsmiðlum. Í óformlegu ritmáli eru myndirnar hæðst- og stæðst- greinilega sprelllifandi sem bendir til að framburður með ð sé það líka – smæðst- og fæðst- er hins vegar horfið.

Myndina hæðst- má skýra með áhrif frá nafnorðinu hæð eins og áður segir – en hvað með stæðst-, smæðst- og fæðst-? Í smæðst- gæti verið um áhrif frá nafnorðinu smæð að ræða, en hin orðin tvö eiga sér engin skyld orð með ð. Trúlegt er að ð-ið hafi komið inn í efsta stig þeirra fyrir áhrif frá hæðst- – málnotendum hefur fundist að þar sem miðstig orðanna hefði sama hljóðafar, hærri, stærri, smærri og færri, hlyti það sama að gilda um efsta stigið. Framburður með ð á sér aldagamla hefð og ég er ósammála Málfarsbankanum sem segir: „Ekki á að heyrast neitt ð-hljóð í framburði orðsins hæstur.“ En af hagkvæmnisástæðum styð ég samræmda stafsetningu og mæli því með að við höldum okkur við að skrifa efsta stig orðanna án ð.