Ofsa ertu góður gæi

Orðin ofsi, rosi, svaki og voði eru öll veik karlkynsorð og ákveðinn merkingarlegur svipur með þeim. Orðið ofsi er algengt í merkingunni 'ákafi í skapi, skapbræði' en einnig 'veðurofsi', rosi merkir 'hvassviðri með kalsarigningu, slyddu eða krapaéljum, rosaveður' en er frekar sjaldgæft í nútímamáli í þeirri merkingu, svaki merkir 'ofsi‘ eða 'ruddalegur maður' en er eiginlega horfið úr málinu, og voði er algengt og merkir 'háski, hætta, tjón'. En aukafallsmyndir þessara orða, ofsa, rosa, svaka og voða, eru hins vegar mikið notaðar til áherslu, ýmist sem fyrri hluti lýsingarorða og atviksorða með -legur/-lega eða einar sér – ofsalegur fjöldi, rosalegur þrjótur, svakalegur kjáni, voðalegur sauður; ofsa bjartsýni, rosa leiðindi, svaka partí, voða gaman.

Orðin ofsa, rosa, svaka og voða eru öll flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók og skráð þar sem atviksorð með merkingunni 'til áherslu: mjög' – svaka sagt „óformlegt“. Í notkunardæmum standa þau öll með lýsingarorði og hafa þannig stöðu atviksorðs – hún var ofsa flott á ballinu, hann er rosa bjartsýnn, þetta var svaka góður matur, kettlingarnir eru voða sætir. En eins og dæmin hér að framan sýna geta þau líka staðið með nafnorðum – haft stöðu lýsingarorðs. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er rosa einnig flokkað sem lýsingarorð „notað í óformlegu máli og er ekki fullkomlega viðurkennt“ og í Slangurorðabókinni frá 1982 eru ofsa og svaka talin bæði atviksorð og lýsingarorð, rosa aðeins atviksorð en voða er ekki með.

Jón G. Friðjónsson hefur bent á að notkun ofsa- sem áhersluforliður er gömul – orð eins og ofsafé og ofsaher koma fyrir í fornu máli og orð á við ofsaakstur, ofsakátur og mörg fleiri eru algeng í nútímamáli. Það er hins vegar oft álitamál hvort á að líta á eignarfallsmyndir af þessu tagi sem hluta samsettra orða – áhersluforliði – eða sem sérstök áhersluorð. Bæði ofsa fé og ofsa her er ritað í tvennu lagi í handritum en það segir ekkert því að orðaskil eru oft höfð með öðru móti í handritum en nú er venja. Samkvæmt ritreglum á að rita eitt orð sé „nafnorði í eignarfalli skeytt framan við nafnorð, lýsingarorð eða atviksorð til að auka vægi eða herða á merkingu þess“ – en það segir ekki endilega að um eitt orð sé að ræða í máltilfinningu fólks.

Það má reyndar færa rök að því að málnotendur skynji ofsa, rosa, svaka og voða sem sjálfstæð orð frekar en forliði samsetninga, a.m.k. með lýsingarorðum. Það er nefnilega hægt að slíta þau frá orðinu sem þau eiga við eins og sést vel í Stuðmannatextanum „Herra Reykjavík“: „Ofsa hefurðu stóra vöðva“, „rosa ertu‘ í fínum skóm“ og „voða ertu‘ í flottum buxum“. Þarna vantar bara svaka en dæmi um það eru auðfundin – „svaka ertu orðinn feitur maður“ í Morgunblaðinu 2019. Þetta er ekki hægt með áhersluforliði eins og t.d. blind-, mold-, stein- og ösku­- – það er útilokað að segja *blind ertu fullur, *mold er hún rík, *stein var hann hissa, *ösku var hann reiður. Með nafnorðum virðast orðin aftur á móti ýmist vera áhersluforliðir eða sjálfstæð orð.

Áhersluorðin ofsa, rosa, svaka og voða eru gífurlega algeng í nútímamáli – tugir þúsunda dæma eru um þau í Risamálheildinni (nema ofsa). Þau tilheyra óformlegu málsniði – rúm 90% dæma um þau eru af samfélagsmiðlum. Samsvarandi orð með -legur/-lega eru mun algengari en formlegri þótt tæp 80% dæma um þau séu af samfélagsmiðlum. Síðarnefndu orðin eru eldri, frá 19. öld eða fyrr, og höfðu upphaflega bókstaflega merkingu – ofsalegt vestanveður, rosaleg veðrátta, svakalegt illmenni, voðalegt augnaráð svo að tekin séu dæmi frá seinni hluta 19. aldar. Á 20. öld breyttust þau svo smátt og smátt í áhersluorð – „Í yngri dæmum virðast öll tengsl við upprunann horfin, hin herðandi merking er ein eftir“ segir Jón G. Friðjónsson t.d. um rosalegur.

Trúlegt er að ofsa, rosa, svaka og voða sem sjálfstæð orð hafi komið til sem styttingar á -legur/-lega-orðunum. Dæmi eru um ofsa og voða frá fyrsta hluta 20. aldar og þau hafa verið mjög algeng síðan. Í Heimskringlu 1910 segir: „Þeir sífelldu þurkar og ofsa hitar, sem verið hafa í alt sumar, hafa kipt vexti úr öllum jarðargróðri.“ Í Norðurlandi 1910 segir: „hann hefur frá barnæsku haft ranga, voða ranga, hugmynd um Guð kristinna manna.“ Elstu dæmi um rosa og svaka eru nokkuð yngri. Í Fálkanum 1940 segir: „jeg veit dáltið rosa-spennandi. Alveg rosa-rosa, skilurðu.“ Í Vísi 1941 segir: „Svaka sveitó!“ Þessi orð verða síðan smátt og smátt algengari, sérstaklega eftir 1980, og engin ástæða til annars en telja þau góð og gild.