Víst þetta er svona

Orðið víst er hvorugkyn af lýsingarorðinu vís, en auk þess atviksorð sem hefur þrjár skyldar merkingar samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók: 'öruggt' (er alveg víst að þú komir í kvöld?); 'væg staðfesting á einhverju' (það er víst kominn föstudagur); og 'sagt sem andmæli, öfugt við það sem annar heldur fram' (hún kann ekki að hjóla – víst kann hún það). En á seinustu árum hefur orðið fengið nýtt hlutverk sem 'samtenging í aukasetningu, táknar ástæðu eða orsök, sem leiðir til röklegrar afleiðingar eða ályktunar'. Þannig skýrir Íslensk nútímamálsorðabók samtenginguna fyrst, en myndin víst er einmitt oft notuð þar sem hefðbundið er að nota fyrst, t.d. hún fékk sér blund víst hún var ein heima svo að einu dæma orðabókarinnar sé breytt.

Samtengingin fyrst er í nútímamáli ýmist notuð með eða án og svo virðist hafa verið alla tíð – dæmi eru um hvort tveggja í Postillu eftir Anthonius Corvinus sem Oddur Gottskálksson þýddi og kom út 1546: „Fyrst þeir flýðu frá honum þá syndguðust þeir“ og „fyrst að þeir höfðu í svo mörg ár beðið hans tilkomu“. Í upptalningu samtenginga í Íslenzkri málfræði sinni nefnir Björn Guðfinnsson aðeins fyrst, og ég hef grun um að stundum hafi verið amast við fyrst að ekki síður en sem að, ef að, hvort að og þegar að, þótt ég finni ekki dæmi um það í fljótu bragði. En sama máli gegnir þegar víst er notað í stað fyrst – þá fylgir ýmist eða ekki. Þannig er bæði sagt hún fékk sér blund víst hún var ein heima og hún fékk sér blund víst að hún var ein heima.

Þessi notkun víst er a.m.k. hátt í þrjátíu ára gömul. Elsta dæmi sem ég hef fundið um hana er í Eyjafréttum 1996: „Og víst ég er nú búinn að stinga niður penna, þá er hér ein opinber fyrirspum til bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum.“ Í Munin 2001 segir: „En víst þú ert enn að lesa þá get ég svo sem sagt þér, eða í raun skrifað þér frá hugmyndinni minni.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Og víst ég var byrjaður að haltra, því þá ekki að hósta líka eins og berklaveikt skáld.“ Á Vísi 2006 segir: „Víst að það er verið að endurskapa fornan galdur er það kannski hugmynd að prófa spila þessa plötu aftur á bak.“ Dæmi í fjölmiðlum eru vissulega ekki ýkja mörg en eitt sást þó í mbl.is í gær: „Sem er svo sem ekki fjarrænt víst ég drekk ekki áfengi yfir höfuð hvort eð er.“

Þessa breytingu má nær örugglega rekja til hljóðfræðilegs misskilnings – framburðarmunur fyrst og víst í eðlilegu tali er oft sáralítill. Hljóðin f og v eru nauðalík, bæði tannvaramælt önghljóð – eini munurinn er sá að f er óraddað en v raddað en sá munur er ekki áberandi í áhersluleysi. Munur á stuttu sérhljóðunum i í fyrst og í í víst er líka mjög lítill í áhersluleysi og á undan st fellur r oft brott að miklu eða öllu leyti. Í ritmáli er munurinn hins vegar augljós og það er vel hugsanlegt að þessi breyting sé margra áratuga gömul í talmálinu þótt hún hafi fyrst orðið áberandi með tilkomu netsins og samfélagsmiðla kringum aldamót þegar óyfirlesinn texti frá venjulegu fólki sem aldrei hafði birt neitt á prenti fór að koma fyrir almenningssjónir.

Það er a.m.k. ljóst að þessi málnotkun sást oft á samfélagsmiðlum frá upphafi þeirra og var þar oft til umræðu. Árið 2002 birtist innleggið „Víst að Guð er ekki til hvernig varð fólkið þá til??“ á Hugi.is og við það var skrifuð athugasemdin: „Hefur væntanlega ætlað að segja "Fyrst að Guð er ekki til hvernig varð fólkið þá til??" fer agalega í taugarnar á mér að sjá fólk skrifa "víst að" í staðin fyrir "fyrst að".“ Á Hugi.is, Bland.is, Málefnin.com og Twitter má finna hundruð athugasemda frá undanförnum 20 árum við þessa málnotkun. Hún hefur líka verið gagnrýnd í málfarsþáttum fjölmiðla – í Morgunblaðinu 2016 sagði Eva S. Ólafsdóttir: „Enn ein hvimleið villa sem heyrist oft er þegar fólk notar atviksorðið „víst“ í stað samtengingarinnar „fyrst“.

Það má vissulega hafa uppi þá mótbáru gegn þessari nýju notkun víst sem samtengingar að orðið sé atviksorð (og hvorugkyn lýsingarorðs) og merki allt annað. En nákvæmlega sama má segja um fyrst. Það er líka atviksorð (og hvorugkyn töluorðs) sem merkir allt annað en samtengingin, og notkun fyrst sem samtengingar er nýjung líka – vissulega nokkurra alda gömul en kemur ekki fyrir í fornu máli. Það má alveg halda því fram að ekki sé óeðlilegra – eða meiri málspjöll – að gera víst að samtengingu en það var á sínum tíma að gera fyrst að samtengingu. Auðvitað er eðlilegt að þessi nýjung falli ekki í kramið hjá fólki sem ekki er alið upp við hana en mér finnst ástæðulaust að ergja sig sérstaklega yfir henni eða berjast harkalega gegn henni.